top of page

Þórisvatn 21. júní 2011

  • Þorkell Daníel Jónsson
  • Jun 21, 2011
  • 3 min read

Er einhver veiði í Þórisvatni?

 

Gamli Landroverinn á leið inn með Þórisvatni.

Hafið þið heyrt af veiði í Þórisvatni“; spurði einhver af veiðifélögunum þar sem við sátum yfir steik og rauðvíni síðastliðinn vetur og ræddum veiðimál. Enginn okkar þekkti til veiða í Þórisvatni en forvitnin var vakin og ákveðið að kíkja þangað á komandi sumri. Þetta er einmitt eitt af því sem gerir veiðibakteríuna svo skemmtilega. Ein spurning og forvitnin er vakin. Eins og veiðimenn þekkja er auðvitað vænlegast til árangurs að þekkja veiðisvæðið út og inn en þegar engin reynsla er fyrir hendi er ekki annað að gera en að reyna að afla þekkingar með því að lesa sér til og spyrja þá sem reynsluna hafa.


Myndin er tekin á leið inn með Austurbotni. Fjær á myndinni er Útgönguhöfði.

Þórisvatn er á Holtamannafrétti og er ýmist talið stærsta eða næst stærsta vatn landsins eftir því við hvað er miðað. Náttúruleg stærð vatnsins var um 70 ferkílómetrar en núna er vatnið vatnsmiðlun fyrir Búrfellsvirkjun og sveiflast stærðin frá því að vera 83 ferkílómetrar upp í 88 ferkílómetra. Umhverfi vatnsins er sennilega ekki ólíkt landslaginu á tunglinu. Sandur og aftur sandur og hvergi stingandi strá. Ef til vill er þessi lýsing ekki beint í samræmi við helstu hugmyndir um náttúrufegurð en hrópandi auðnin er falleg í hráleika sínum. Í kvöldsólinni er fegurðin óumdeilanleg þar sem geislar hennar dansa við skuggana í nöktum hlíðum fjallanna.

Hér áður fyrr var vatnið víst þekkt fyrir stóra urriða og í þeim frásögnum sem ég fann um vatnið er algeng stærð fisksins 1,5 til 3,5 pund sem er ágæt stærð. Hann verður víst ekki mikið stærri en þetta því þá þyrfti hann að hafa aðgang að stærra æti, hornsílum og þess háttar. Fiskurinn sem í vatninu er sagður sérlega góður matfiskur, eldrauður á holdið. Framundir miðja síðustu öld töldu menn vatnið vera fisklaust en ágætis mið fundust innst í Austurbotni en hann er sunnan við gríðarstóran höfða, Útgönguhöfða, sem skiptir norðurhluta vatnsins í tvennt. Samkvæmt heimildamönnum okkar er vænlegast að reyna að veiða af tanga sem gengur langt út í Austurbotn svona 7 – 800 m áður en komið er inn í botninn. Einnig var okkur bent á að vænlegt væri að reyna við kletta sem eru um það bil fyrir miðjum Austurbotni en þar er örlítið dýpra. Þriðji staðurinn sem okkur var bent á er undir klettum á norðurbakka Austurbotns.


Þegar við komum að vatninu voru veiðimenn á báðum þessum stöðum þannig að við plöntuðum okkur sunnan megin í botninum og hófum veiðar. Veðrið var gott. Dálítið kalt miðað við að komið er fram yfir miðjan júní. Hiti 7 – 10 gráður, gola og glampandi sól. Sá sandinn þyrlast um í hlíðinni fyrir ofynan og hugsaði að ekki vildi ég vera þarna ef vind hreyfði að einhverju ráði. Fljótlega settum við í fisk en okkur þótti veiðin full róleg. Þegar veiðimennirnir við klettana hugðu sér til hreyfings ákváðum við að reyna fyrir okkur þar sem þeir höfðu verið. Við erum rétt búnir að stilla okkur upp þar þegar við sjáum að veiðimennirnir eru búnir að kolfesta bílinn í lausum sandinum enda drógu þeir tjaldvagn á eftir sér. Ekki myndi ég ráðleggja neinum að draga tjaldvagn þarna niður að vatninu því hann virkar eins og plógur í sandinum. Ekki var annað að gera en að reyna að draga þá upp sem tókst eftir dálítið bras og með hjálp veiðimannanna á tanganum. Bæði mennirnir á tanganum og þeir sem sátu fastir í sandinum höfðu heilmikla reynslu af veiðum í vatninu og vitnuðu um betri veið i en var þennan daginn, bæði vitnuðu þeir um stærri fiska og fleiri. Að mínu viti þarf veiðin að vera töluvert betri til að réttlæta 4.900 króna veiðigjald fyrir silungsveiði í vatni.


Við veiddum inni í botninum.

Afrakstur ferðarinnar voru nítján urriðar sem skiptust á þrjá veiðimenn. Særsti fiskurinn var tvö pund en hinir voru kannski rétt rúmt pund. Veiðiaðferðin var ekki sú skemmtilegasta er. Pungsakka, öngull og sári sem beita. Þessu var dúndrað út og síða sest á rassinn og beðið. Ef þú vilt fá fisk þá hellir þú kaffi í bolla því fiskurinn virðist skynja það og hleypur á snærið einmitt þegar þú vilt frá frið. Urriðinn í Þórisvatni tók einnig spún. Við reyndum ekki að kasta flugu enda segja sögur að það sé erfitt að fá hann til að taka flugu þarna. Fróðlegt væri að heyra hvort það sé hægt. Það er óljóst hvað olli svo dræmri veiði en reynsluboltarnir sem þarna voru töldu að það væri of mikið í vatninu, vatnið of litað og að það væri of kalt. Reyndar sagði einn þeirra sem þarna voru að fiskurinn færi smækkandi og þá spurningin hvað valdi því? Er minna um æti? Er vatnið ofsetið? Hver veit?





Comments


bottom of page