top of page

Þórisvatn 14. júní 2012

  • Þorkell Daníel Jónsson
  • Jun 14, 2012
  • 1 min read

Veiði fyrir letingja

 

Dæmigerð mynd fyrir ástandið í þessari veiðiferð. Nægur tími gafst til að ræða landsins gagn og nauðsynjar og hvíldar. Hér sefur sá sem þessa grein ritar svefni hinna réttlátu enda ástæðulaust að hafa áhyggjur af stöngunum. Eini fiskurinn sem náðist er þegar kominn í pokann.

Það skal ég viðurkenna að þegar kom að fyrstu veiðiferð sumarsins var ég orðinn æði óþreyjufullur. Vorið hefur verið einstaklega annasamt en stundum verður að forgangsraða og að þessu sinni varð vorveiðin að víkja. Það kom þó að því að hægt var að finna smugu til veiðiferðar.

Eldsnemma fimmtudagsmorguninn þann 14. júní var lagt af stað úr bænum og ekið upp á Holtamannafrétt til að veiða í Þórisvatni. Í fyrrasumar fór sami hópur til veiða í vatninu og þótt hrifningin yfir aflabrögðum hafi ekki verið mikil þá vita stangveiðimenn að þetta gjarnan spurningin um að hitta á réttu aðstæðurnar. Okkur tókst að gleyma okkur í kjaftagangi á leiðinni uppeftir og ókum framhjá afleggjaranum upp að vatninu og enduðum í grunnbúðum einhvers kvikmyndatökuliðs sem var að undirbúa tökur á einhverri stórmyndinni. Við sáum okkur þann kost vænstan að snúa við hið snarasta áður en við yrðum sjanghæjaðir í tökur enda óvenju glæsilegir íslenskir karlmenn á ferð!


Aðstæðurnar við vatnið voru svipaðar og árið áður utan þess að vatnshæðin var miklu meiri nú en þá. Sólin skein og vindur lítill og stundum var jafnvel logn. Öðru hvoru dró fyrir sólu og fljótlega eftir að við hófum veiðar steyptist haglél yfir okkur en annars var þurrt þangað til um kvöldmatarleitið en þá tók að rigna.


Hver var svo afrakstur ferðarinnar? Sex silfraðir urriðar, rauðir á holdið og allir um það bil pund að þyngd. Lítið að gerast veiðinni þannig að nægur tími gafst til að fylgjast með sandlóunni og sendlingnum í leit sinni að æti í sandinum.



Commentaires


bottom of page