top of page

Þingvallavatn 9. júlí 2020

  • Þorkell Daníel Jónsson
  • Jul 10, 2020
  • 2 min read

Bílamotta í flæðamálinu

 

Stundum er ekkert að frétta. Það á svo sannarlega við um ferðina í Þingvallavatn í morgun. Það var bara alls, alls ekkert að frétta. Veðrið var ágætt til veiða. Himinn var hálfskýjaður og smávegis kul var að suðvestan eða jafnvel alveg að vestan. Vindurinn var samt ekki meiri en svo að það var vel hægt að koma flugunni út á móti honum og það jafnvel þótt ég væri að kasta með fimmunni minni. Ég byrjaði á því að reyna veiði á þeim tveim stöðum á austubakkanum sunnan við Arnarfellið sem hafa gefið mér fisk.


Ég gaf þessum tveim stöðum rúmar tvær klukkustundir. Það eina sem gerðist var að ég steig út af hraunhellu á röngum stað og súnkaði niður í vatnið nánast upp í háls. Eftir þetta volk var mér frekar kalt því vatn fossaði að sjálfsögðu inn um hálsmálið og niður í vöðlur. Eftir rúma tvo tíma var mér farið að leiðast gæftarleysið, gekk bakkann til baka og fyrir víkina við Arnarfellið.

Mig var farið að undra fjarveru himbrimans sem venjulega heldur sig á þessum slóðum. Hann hafði ég hvergi séð. Ég hafði hugsað mér að veiða malarbakkann vestan við víkina í botni austurbakkans. Á leið minni þangað rekst ég á himbrimaparið sem ég saknaði. Þau voru að dóla með einn unga í rólegheitum í víkinni fast upp við bakkann. Þau voru eitthvað svo slök svo ég lét á það reyna hvort þau leyfðu mér að koma nær. Parinu virtist vera slétt sama um veiðimanninn og hélt bara áfram að sinna sínu. Ég fylgdist með fuglunum um stund áður en ég fór að veiða. Þegar ég er að veiða bakkann til vesturs rek ég augun í eitthvað sem damlar þar í flæðamálinu. Mér sýnist þetta vera einangrunardýna og gef mér að einhver tjaldbúinn hafi glatað henni. Um hádegið ákvað ég að segja þetta gott og held af stað að bílnum. Í leiðinni gríp ég dýnuna með enda var hún þarna eins og hvert annað rusl. Dýnan reynist ekki vera dýna. Þetta var stærðareina gúmmímotta hugsuð í skott á stórum jeppa. Mér er hlulin ráðgáta hvernig á henni stendur þarna því enginn bíll kemst að vatninu. Hvað um það þá var gúmmímottan eini aflinn í þessari ferð.



Comments


bottom of page