top of page

Þingvallavatn 9. júlí 2014

  • Þorkell Daníel Jónsson
  • Jul 10, 2014
  • 2 min read

Hvar er bitmýið?


Ég ákvað að verðlauna mig fyrir dugnaðinn undanfarna daga við hellulögn í garðinum hjá mér með því að rífa mig upp á ókristilegum tíma að morgni dags níunda júlí og skjótast austur í Þingvallavatn.


Mér fannst ég hafa unnið fyrir því að fá að vera einn með sjálfum mér við vatnið eina morgunstund. Veðrið var ekkert sérstakt þegar ég lagði af stað austur. Ausandi rigning og smávegis vindur. Ég lét það samt ekki stoppa mig vitandi að ef maður hrekkur ávallt undan veðrinu í þessu landi situr maður ansi oft heima.


Þegar austur var komið reyndist vera öllu bjartara yfir Þingvöllum en borginni. Ég ók suður fyrir Arnarfellið. Þar var vindur svo stilltur að mýið gat leikið lausum hala. Argur yfir þeim óþægindum sem mýið olli mér varð hugsaði til sagna af mývarginum fyrir virkjun Sogsins. Vargurinn ku hafa verið svo rammur að hann ærði menn og skepnur. Hér vitnar Össur Skarphéðinsson í orð Péturs M. Jónassonar vatnalíffræðings og smala við bæinn Miðfell um nokkurra ára skeið. Pétur er ættaður frá þeim bæ en hann er austan megin við Þingvallavatn.


"Mér fannst ekkert bitmý við Mývatn miðað við það sem kom úr Soginu upp úr Jónsmessu þegar fyrsta og langstærsta gangan kom. ........Það stóðu ekki strókar upp eins og við Mývatn heldur bókstaflega blá ský sem dró fyrir sólu.,,


Annars mæli ég með að áhugasamir um Þingvallavatn lesi bækurnar Þingvallavatn. Undraheimur í mótun eftir Pétur og Urriðadans eftir Össur.


Aftur að veiðiferðinni. Ég byrjaði að veiða á austurbakkanum sunnan við Arnarfellið. Eftir um það bil klukkustund setti ég í eina kuðungableikju og fljótlega setti ég í aðra. Báðar tóku þær svarta mobutu flugu en hún líkir eftir vatnakuðungum sem kuðungableikjan er sólgin í. Ekki komu nú fleiri bleikjur á land í þessari ferð. Ég ákvað þá að færa mig norður fyrir Arnarfellið og prófaði að veiða vestan við Hallvík. Þar var ekkert líf þannig að ég gaf mér tíma til að taka myndir fyrir þessa frásögn. Ég endaði síðan á því að kíkja á Öfugsnáðann og þar var einnig lítið að gerast. Rétt eftir hádegið lagði ég af stað heim á leið.



Comentários


bottom of page