top of page

Þingvallavatn 6. júlí 2011

  • Þorkell Daníel Jónsson
  • Jul 6, 2011
  • 2 min read

Þetta fer smám saman batnandi.

 

Eigum við ekki að segja að ferðirnar í Þingvallavatn fari smám saman batnandi þetta sumarið. Fyrstu tvær veiðiferðirnar voru algerlega tíðindalausar og ég varð ekki var við einn einasta silung. Í þessari ferð get ég altjent sagt að ég hafi einhverja sögu að segja og ég varð var við silung.

Það var meira að segja þannig að silungurinn sem ég varð var við var af stærri gerðinni en sagan er samt ekki eins og ég vildi hafa hana. Það var leiðinda alda á vatninu en ég þrjóskaðis við að kasta flugunni á móti vindinum. Ég var búinn að kasta í nokkra stund þegar ég verð var við að fýll var óvenju nærgöngull við mig. Mér þótti háttalag hans undarlegt þannig að ég fór að fylgjast með honum. Þá sá ég fljótt skýringu á háttalaginu. Fýllinn hafði engan áhuga á mér en hann hafði áhuga á stórum urriða sem flaut á öldunum í átt að mér. Ég gerði fýlnum þann óleik að bera urriðan á land og reyndist hann vera af stærri gerðinni. Það hefði nú verið gaman ef þessi fengur hefði verið með öðrum hætti.


Ekki var fundur urriðans einu tíðindin í þessari veiðiferð. Ég kastaði út frá skerinu sem er á fyrri myndinni sem fylgir þessari grein. Óð upp í rúmlega mitti og hóf fluguköstin. Skyndilega finn ég að stöngin og línan fara að haga sér óeðlilega. Skýringin á því var að fluguhjólið datt af stönginni, út í vatnið og skorðaðist á milli steina. Ekki tókst mér að krækja í það eða draga það upp með línunni og aðstaðan var öll hin önugasta. Öldurnar köstuðu mér til og frá. Ég ákvað því að stinga mér á bólakaf á milli öldutoppa til að ná hjólinu upp. Það tókst en að sjálfsögðu fossaði vatn inn í vöðlurnar þannig að ég varð rennblautur. Óð síðan í land en hvað haldið þið að hafi gerst þá. Ský dró frá sólu þannig að ég þornaði á tiltölulega skammri stund.

Comentarios


bottom of page