top of page

Þingvallavatn 29. júní 2016

  • Þorkell Daníel Jónsson
  • Jun 29, 2016
  • 2 min read

Updated: Jun 25, 2022

Er vestanáttinn vonlaus veiðiátt?

 

Veðrið var einstaklega fallegt í bænum þegar fyrsti morgun sumafrísins rann upp. Ég ákvað að fara til veiða í Þingvallavatni um kvöldið enda hefði verið mikil synd að verja svo fallegu kvöldi í knattspyrnugláp. Mér til armæðu fór að hvessa af suðvestan þegar leið á daginn. Ég lét það samt ekki stöðva mig og um sjöleitið stend ég við Hallvíkina með suðvestanvindinn í fangið.


Þetta var þriðja ferðin í Þingvallavatn þetta sumarið. Hinar tvær skiluðu engu. Í síðustu ferð sagði félagi minn mér að hann hefði eftir áreiðanlegum heimildamönnum að vestanstæðar áttir væru þær alverstu í Þingvallavatni. Það voru fáir við veiðar í vatninu þetta kvöld. Ég velti fyrir mér hvort það væri almenn vitneskja meðal veiðimanna að það þýddi ekkert að reyna að veiða í vatninu við þessar aðstæður. Í báðum fyrri ferðunum í sumar var suðvestanátt og þá gekk ekkert. Ef til vill var maður búinn að sannreyna að gæftarleysi í Þingvallavatni fylgdi vestanáttinni. Bleikjan við Hallvíkina lét mig alveg í friði og þar sem aðstæður til flugukasta voru ekki þær bestu ákvað ég fljótlega að færa mig norður fyrir Arnarfellið.


Það var meira skjól norðan við Arnarfellið. Ég byrjaði að reyna fyrir mér á bakkanum sem veit að Miðfelli. Þar setti ég fljótlega í ágæta bleikju sem tók pheasant tail. Hún tók á stað þar sem ég hef áður sannreynt að oftast er fiskur. Síðan gerðist ekkert um langa hríð. Ég ákvað þá að færa mig á bakkann undir brekkunni vestanmegin við víkina sem maður kemur fyrst að þegar gengið er að vatninu frá bílastæðinu. Eftir að hafa kastað meðfram bakkanum nokkra hríð tók önnur ágætis bleikja. Að þessu sinni féll hún fyrir flugunni killer. Í kjölfarið tók þriðja bleikjan sömu flugu en hún var smá.



Vindinn lægði. Ég óð út í vatnið að þeim stað þar sem snardýptkar. Kasta flugunni ýmist beint út eða meðfram grjótgarðinum til sitthvorrar handar. Himbrimapar var að sniglast í kringum mig með ungana sína tvo. Fuglarnir voru greinilega vanir veiðimönnum því þeir voru gjörsamlega skeytingalausir um athafnir mínar. Ég kasta flugunni beint út og bíð um stund á meðan hún sekkur. Skyndilega kemur annar fullorðni fuglinn upp úr vatninu einungis þrjá metra til hliðar við mig. Hann hann horfir í kringum sig. Stingur sér síðan á kaf og rennir sér á fleygiferð fram hjá mér meðfram grjótgarðinum. Á fleygiferð segi ég því það er með ólíkindum hversu hratt fuglinn geystist hjá.

Þegar frá líður verða það ekki bleikjurnar þrjár sem sitja eftir í minninu. Það verður augnablikið þegar himbriminn sýndi mér sundhæfni sína í tæru Þingvallavatninu. Augnablik sem þetta er ástæðan fyrir því að maður nennir að standa löngum stundum við íslensk veiðivötn án þess að fá einn einasta fisk. Ég verð nú samt að viðurkenna að bleikjurnar þrjár sem náðust á land þrátt fyrir suðvestan vind gerðu góða ferð í Þingvallavatn enn betri.

Comments


bottom of page