Þingvallavatn 29. júlí 2015
- Þorkell Daníel Jónsson
- Jul 30, 2015
- 2 min read
Gengið á vatni líkt og Jesú forðum.

Eins og Þingvallavatn er dásamlegt vatn þá er það ekki alltaf gjöfult. Þannig hefur mér fundist staðan hafa verið í sumar hjá mér. Það er samt alltaf yndislegt að vera við vatnið. Þegar ég kom heim úr vinnunni á miðvikudaginn spurði ég Lilju hvort hún væri til í að koma með mér í kvöldferð í Þingvallavatn. Hún var til í það enda uppfull af orku eftir tíðindalítinn dag. Við ákváðum að verja kvöldinu við Nautatanga. Þótt ég hafi farið tvisvar á þetta svæði í sumar fannst mér það ekki fullkannað. Stelpan var með spún en ég var með fluguna eins og venjulega. Það kemur sá dagur að stelpan verði fær í fluguveiðina en það er ekki alveg komið að því.
Eitthvað hefur veiðimönnum fækkað við vatnið en einhverjir voru að reyna fyrir sér. Við beygðum niður að vatni á afleggjara sem er merktur Nes – Nautatangi. Gengum síðan niður á stað sem mér sýnist að sé ekki merktur sem veiðistaður í Þingvallabæklingnum. Þetta er tangi sem er mitt á milli Nautatanga og svæðis sem er merkt Hólmarnir. Þarna varð ég var við fisk síðast þegar við hjónin fórum í vatnið og það gerðist aftur nú. Þarna er fiskur.
Næst gengum við vestur fyrir Nautatangann. Þar fengum við hjónin tvær bleikjur í síðustu ferð þannig að við Lilja urðum að prófa þar aftur. Þessi staður er ekki heldur merktur sem veiðistaður í Þingvallabæklingnum en er út af smárri eyju sem er við hægri jaðarinn á myndinni af þessu svæði í bæklingnum. Ekki gaf hann neitt að þessu sinni.
Næst gengum við út á Nautatangann. Þar er hægt að vaða nokkuð langt út og standa síðan eins og Jesú á Genesaretvatni forðum daga og kasta í allar áttir. Frekar líklegur staður myndi ég halda og mér sýnist að hann sé merktur í fyrrnefndum bæklingi. Ekki gaf staðurinn neitt í þetta skiptið. Ég á nú eftir að reyna aftur þarna.

Nú var orðið tímabært að halda heim á leið. Okkur var tekið að svengja og það er engin gleði í því að ráfa glorsoltinn um bakkana í algjöru veiðileysi. Við vorum reyndar búin að reikna með lengri dvöl við vatnið og ætluðum að fá okkur kvöldverð á bakkanum en því miður uppgötvuðum við þegar á Þingvöll var komið að nestið var í bakpokanum sem gleymdist heima í eldhúsi.
Comentários