top of page

Þingvallavatn 29. júlí 2015

  • Þorkell Daníel Jónsson
  • Jul 30, 2015
  • 2 min read

Gengið á vatni líkt og Jesú forðum.

 

Lilja í nýja veiðijakkanum sínum. Hann var keyptur á útsölu í fyrrahaust þegar veiðitíminn var liðinn og átti að vera jólagjöf. Honum var síðan stungið upp í skáp og þar gleymdist jakkinn. Um mitt sumar rámar Guðrúnu í að hafa keypt jakka handa stelpunni og eftir mikla leit fannst þessi fíni jakki.

Eins og Þingvallavatn er dásamlegt vatn þá er það ekki alltaf gjöfult. Þannig hefur mér fundist staðan hafa verið í sumar hjá mér. Það er samt alltaf yndislegt að vera við vatnið. Þegar ég kom heim úr vinnunni á miðvikudaginn spurði ég Lilju hvort hún væri til í að koma með mér í kvöldferð í Þingvallavatn. Hún var til í það enda uppfull af orku eftir tíðindalítinn dag. Við ákváðum að verja kvöldinu við Nautatanga. Þótt ég hafi farið tvisvar á þetta svæði í sumar fannst mér það ekki fullkannað. Stelpan var með spún en ég var með fluguna eins og venjulega. Það kemur sá dagur að stelpan verði fær í fluguveiðina en það er ekki alveg komið að því.


Eitthvað hefur veiðimönnum fækkað við vatnið en einhverjir voru að reyna fyrir sér. Við beygðum niður að vatni á afleggjara sem er merktur Nes – Nautatangi. Gengum síðan niður á stað sem mér sýnist að sé ekki merktur sem veiðistaður í Þingvallabæklingnum. Þetta er tangi sem er mitt á milli Nautatanga og svæðis sem er merkt Hólmarnir. Þarna varð ég var við fisk síðast þegar við hjónin fórum í vatnið og það gerðist aftur nú. Þarna er fiskur.


Næst gengum við vestur fyrir Nautatangann. Þar fengum við hjónin tvær bleikjur í síðustu ferð þannig að við Lilja urðum að prófa þar aftur. Þessi staður er ekki heldur merktur sem veiðistaður í Þingvallabæklingnum en er út af smárri eyju sem er við hægri jaðarinn á myndinni af þessu svæði í bæklingnum. Ekki gaf hann neitt að þessu sinni.


Næst gengum við út á Nautatangann. Þar er hægt að vaða nokkuð langt út og standa síðan eins og Jesú á Genesaretvatni forðum daga og kasta í allar áttir. Frekar líklegur staður myndi ég halda og mér sýnist að hann sé merktur í fyrrnefndum bæklingi. Ekki gaf staðurinn neitt í þetta skiptið. Ég á nú eftir að reyna aftur þarna.


Veitt út af Nautatanga. Mikið væri nú gott að finna vaðstafinn sem ég vann eitt árið í happadrætti hjá Stangveiðifélagi Reykjavíkur en því miður týndist hann í flutningum. Hann kæmi að góðum notum því stundum getur botninn í Þingvallavatni verið erfiður að vaða. Ég finn vonandi vaðstafinn einhvern tíman.

Nú var orðið tímabært að halda heim á leið. Okkur var tekið að svengja og það er engin gleði í því að ráfa glorsoltinn um bakkana í algjöru veiðileysi. Við vorum reyndar búin að reikna með lengri dvöl við vatnið og ætluðum að fá okkur kvöldverð á bakkanum en því miður uppgötvuðum við þegar á Þingvöll var komið að nestið var í bakpokanum sem gleymdist heima í eldhúsi.


Comentários


bottom of page