Þingvallavatn 26. júní 2020
- Þorkell Daníel Jónsson
- Jun 27, 2020
- 2 min read
Æfing fyrir mjóbakið

Maður á ekki að bjóða samferðafólki sínu upp á sífellda kveinstafi þótt skrokkurinn sé ekki alveg eins og maður vill hafa hann. Ég ætla mér nú samt að leyfa mér að hefja þessa frásögn með smávegis kvarti. Lofa síðan að nefna þetta aldrei aftur. Kvartsárt fólk er leiðinlegt og leiðinlegur vill maður ekki vera nema brýna nauðsyn beri til. Fyrir um það bil þremur mánuðum síðan hlupu einhver leiðindi í bakið á mér. Það hefur svo sem gerst áður en að þessu sinni virtist verkurinn ekki ætla að lagast. Hann bara ágerðist, hljóp frá mjóbaki út í mjaðmir, niður í lappir og virtist ætla að dreifa sér um allt. Þegar veiðitímabilið var að hefjast var verkurinn farinn að hlaupa í skapið á mér líka. Það er auðvitað það alversta. Ég fór að gera alls konar bakæfingar og teygjur á stofugólfinu heima í von um að þannig gæti ég snúið þessari óheillaþróun við. Allt kom fyrir ekki og var ég orðinn smeykur um að máttarvöldin ætluðu að eyðileggja ánægjuna af veiði og útiveru fyrir mér þetta sumarið.
Þann 17. júní lét ég samt reyna á hvort ég gæti veitt. Fór í Þingvallavatn og ekki reyndist nú vatnið fara vel í bakið á mér. Ég óð um það æjandi og óandi og kveið hverju skrefi. Þeir sem veitt hafa í vatninu vita hvernig botninn er víðast hvar. Nú, níu dögum seinna er staðan allt önnur. Í vikunni fór ég nefnilega að finna fyrir breytingu á bakinu. Vissulega er bakið enn að stríða mér það er mikill léttir að finna að ég get notið þess að veiða. Mér tókst meir að segja að detta á hausinn í tvígang án þess að fá sáran sting. Í annað skiptið reyndar út í vatnið þannig að það var mjúk lending. Hér sannast sem sagt að verkjaveiðiferðin þann 17. júní var hin besta sjúkraþjálfun.

Nú hef ég létt hugarangri mínu af mér og get hafið frásögn af þessari veiðiferð. Ég tel mig vera búinn að reyna að veiða á langflestum mögulegum veiðistöðum sem tilheyra þjóðgarðinum. Einn staður var þó alltaf eftir en það er sjálfur Ólafsdrátturinn. Á þeim veiðstað má ekki veiða eftir 1. júlí þannig að ef ég ætlaði mér að klára hringinn í sumar þá er ekki seinna vænna en að drífa í því. Ég lagði bílnum fyrir miðju Arnarfellinu og gekk norður með því þar til ég gat snúið til vesturs niður að vatninu. Þar blasti við hið þokkalegasta veiðisvæði og ekki svo aðþrengt að ekki væri hægt að kasta flugu. Ég óð vestur með Arnarfellinu þar til ég komst ekki lengra. Kastaði flugunni peacock nokkrum sinnum og fljótlega er þrifið í. Það reyndist myndarlegasta kuðungableikja, þrjú pund. Ég hélt auðvitað að nú myndu kusurnar þrífa í flugurnar mínar, hver á fætur annarri. Það var nú ekki alveg þannig svo ég setti fluguna watson fancy undir. Þá er, ekki beint þrifið í fluguna, en eitthvað festi sig í henni. Það reyndist fyrsta murta sumarsins.
Eftir þetta varð ég ekki var en sá þó myndarlegan urriða hreinsa sig upp úr vatninu. Hann var utan seilingar en alltaf er nú gaman að rekast á þessa bolta. Um hálf eitt leitið sagði ég þetta gott og hélt heim á leið.
Comments