top of page

Þingvallavatn 25. maí 2015

  • Þorkell Daníel Jónsson
  • May 25, 2015
  • 1 min read

Það vorar hrikalega seint þetta vorið

 

Himbriminn synti alveg ofan í veiðimanninn. Maður var orðinn smeykur um að hann flækti sig í línunni. Hið sama gerðu toppendurnar nokkru síðar .

Það vorar hrikalega seint þetta árið. Við hjónin ákváðum samt að renna austur í Þingvallavatn og kanna ástandið. Við vorum svo sem ekkert bjartsýn á aflabrögð enda vorum við viss um að vatnið væri enn of kalt til að bleikjan væri komin almennilega á stjá.


Samkvæmt upplýsingum frá veiðimanni sem við hittum á bílastæðinu við Lambhaga var vatnshitinn kominn í 3,6 gráður sem er að mínu viti heldur kalt. Við gengum nú samt niður á Leirutá enda veðrið hreint dásamlegt. Þar hittum við Andrew sem þekkir vatnið mjög vel en hann hefur komið nokkrum sinnum í vatnið í vor. Hann staðfesti það sem við héldum. Bleikjan var lítið farin að sína sig.


Við létum þó ekki deigan síga og nutum þess að æfa fluguköstin í logninu fram undir hádegi og fylgdumst með atferli fuglanna í vorstússi sínu. Fjórir toppandarsteggir djöfluðust hver um annan þveran í von um að vinna hylli eina kvenfuglsins í hópnum. Himbriminn var á sínum stað og skeytti engu um aðfarir veiðimanna.


Um hádegisbil héldum við fisklaus heim. Það var samt ekki svo að við yrðum ekki vör við fisk því við sáum bleikjurnar synda fram hjá okkur í að minnsta kosti þrígang þannig að einhver var vonin um að fiskur hlypi á snærið.


Veðrið var ákjósanlegt til að æfa fluguköstin. Blankalogn. Hér horfum við í norður. Hrafnabjörg er fjallið hægra megin.

Comments


bottom of page