top of page

Þingvallavatn 24. júlí 2015

  • Þorkell Daníel Jónsson
  • Jul 25, 2015
  • 2 min read

Vindátt hefur snúið sér og nú er komin sunnanátt.

 

Myndin er tekin suður eftir vatninu. Hengillinn er fjallið með snjónum í. Í forgrunni er blágresið sem skartar sínu fegursta í júlí.

Eftir langvarandi norðanátt var kærkomið að heyra í veðurfréttum í upphafi vikunnar að síðar í vikunni myndi vindur snúa sér. Síðdegis á fimmtudeginum sagði spáin að vindátt breyttist og rétt fyrir kvöldfréttir snaraði ég veiðibúnaðinum í bílinn og ók austur á Þingvöll. Klukkan 19:03 var flugunni Teal and black kastað í vatnið á austurbakkanum suður undan Arnarfellinu.


Norðanáttin hefur ekki verið að skila mér góðum árangri í veiðinni þannig að við skulum segja að þessi ferð hafi verið farin í rannsóknarskyni. Gefur vel í Þingvallavatni í sunnanátt? Aðstæður voru svo sannarlega góðar til flugukasta. Sunnan andvari sem hélt flugunni frá og hlýtt. Ég byrjaði að veiða á stað sem stundum geymir fisk en eftir að hafa barið staðinn í eina og hálfa klukkustund fór mér að leiðast þófið. Ákvað að ganga eins langt norður eftir og heimilt er og veiða til baka.


Þetta er fjórða ferðin mín í Þingvallavatn þetta sumarið. Í fyrri þremur ferðunum var ég lengst af að veiða í logni og viti menn. Þegar ég er komin norður eftir dettur í dúnalogn. Enn og aftur. Merkilegt. Aðstæður þarna á austubakkanum eru frekar einsleitar og í rauninni fátt sem segir manni hvar sé vænlegt að reyna fyrir sér. Það var því ekkert annað að gera en að reyna fyrir sér hér og þar og prófa hinar og þessar flugur. Það gerði ég en náði ekki að heilla kuðungableikjuna. Fékk hins vegar nokkrar murtur.


Það var orðið áliðið þegar ég kem á upphafsstaðinn aftur og var satt best að segja orðinn úrkula vonar um að ég fengi í soðið í þessari ferð. Ákvað samt að kasta nokkrum sinnum. Setti Teal and black aftur undir og eftir smá stund tekur falleg 1,5 punda kuðungableikja þannig að ég gat farið heim í svefninn.


Veiðimaðurinn stendur þar sem ég hóf veiðar og lauk veiðum.


Comments


bottom of page