Þingvallavatn 23. apríl 2020
- Þorkell Daníel Jónsson
- Apr 24, 2020
- 2 min read
Maður verður að vera vel til hafður

„Hvað! Ertu að raka þig?“: Spyr eiginkonan og horfir í forundran á mig. „Já, maður verður að vera vel til hafður. Það vita allir að urriðinn hleypur ekki á fluguna hjá órökuðum manni.“ Þessi samskipti okkar hjónanna var undanfari fyrstu veiðiferðar sumarsins. Tveir litlir kakóbrúsar og sex kleinur voru síðan settar í bakpokann og klukkustund síðar vorum við mætt á bakkann.
Veðrið var milt. Hitin í kringum sex gráðurnar og hæg sunnanátt. Ísskör var enn við bakkana að vestanverðu en að austanverðu þar sem við vorum var enginn ís lengur. Kærkomnir ferðalangar voru mættir. Við bæði heyrðum í þeim og sáum. Himbriminn var mættur á víkina sína við Arnarfellið, álftapar flaug yfir og söngur skógarþrastana ómaði í kvöldkyrrðinni. Einnig heyrðum við í hrossagauk og sandlóu og við bílastæðið tók alhvít rjúpa á móti okkur. Hvað sem kórónuveiru líður þá halda fuglarnir sinni rútínu en ófleygir tvífótungar voru fáir á ferð. Nokkra sáum við þó en allir voru þeir með stöng í hönd að eltast við urriðann rétt eins og við.
Við ókum að venju veginn meðfram vatninu. Hann er skelfilega illa farinn eftir veturinn. Ég man ekki eftir honum svona slæmum. Vegagerðin hefur lokað veginum vestanmegin þannig að ef ætlunin er að veiða sunnan megin við Arnarfellið þarf að aka nýlega endurgerðan Þingvallaveginn. Ætli skýringin á ástandi strandvegarins sé ekki liggi ekki einmitt í milli rútuumferð um hann á meðan verið var að lagfæra Þingvallavegin síðasta sumar. Slóðinn meðfram Arnarfellinu var einnig viðsjárverður en það var nú við því að búast. Svona snemma vors er aurbleytan alltaf mikil og á þremur stöðum hefðum við getað fest okkur í drullunni. Við flutum frekar auðveldlega yfir bleytuna á okkar fjallabíl.
Af veiðinni sjálfri segir fátt. Vatnið var kalt og þrátt fyrir að vera nýrakaður leit urriðinn ekki við neinu sem við höfðum upp á að bjóða. Eiginkonan sem venjulega veiðir með kaststöng neyddist til að munda fluguna því það má aðeins veiða með flugu til fyrsta júní í vatninu. Ég sá að smátt og smátt fékk hún meiri tilfinningu fyrir línunni og hefði þess vegna getað sett í urriða ef hann hefði bara komið upp að landinu í ljósaskiptunum.
Comments