top of page

Þingvallavatn 20. júní 2013

  • Þorkell Daníel Jónsson
  • Jun 21, 2013
  • 1 min read

Að loknum annasömum vetri.



Tíminn frá síðustu ferð í Þingvallavatn í júní 2012 hefur verið fádæma annasamur og viðburðaríkur. Sumarfríið er því orðið langþráð svo ekki sé meira sagt. Að loknum síðasta vinnudegi fyrir sumarfrí á fimmtudaginn var veiðigræjunum snarað í bílinn og ekið að Þingvallavatni. Veðrið var hið besta. Örlítill vindur að vestan en mjög hlýtt. Ég ákvað að fara á þær slóðir við vatnið sem ég þekki hvað best og ók niður að vatninu sunnan við Arnarfellið. Á því svæði hef ég fengið fisk á nokkrum stöðum en einn er þó staðurinn sem mér hefur þótt líklegri en aðrir.

Malarbakkinn sem liggur frá Arnarfelli endar rétt norðan við steininn sem bleikjan liggur á. Handan við grashólinn er víkin sem talað er um í greininni.

Þegar ég kem að vatninu eru að venju nokkrir að bjástra við veiðar og einn veiðimannanna hafði plantað sér niður á uppáhalds staðnum mínum. Ég ákvað því að ganga að Arnarfellinu og veiða síðan í rólegheitum meðfram bakkanum í suðurátt. Þarna háttar eilítið öðruvísi til en víðast hvar í þjóðgarðinum því þarna er malarbakki en ekki gróið hraun. Ég varð fljótlega var við að það er fiskur þarna en ekki vildi hann taka. Ekki fyrr en ég er kominn að suðurenda malarbakkans en þar tók fyrsta bleikjan. Þegar malarbakkanum sleppir tekur við falleg vík sem ég hef stundum reynt að veiða í en ekki átt erindi sem erfiði. Að þessu sinni fékk ég þó eina bleikju rétt vestan megin við víkina og missti aðra. Hér var orðið áliðið kvölds og ég farinn að hugsa mér til heimferðar en freistast til að prófa nokkur köst á uppáhalds staðnum mínum. Þar náðist þriðja bleikjan.

Comentários


bottom of page