top of page

Þingvallavatn 17. júní 2020

  • Þorkell Daníel Jónsson
  • Jun 18, 2020
  • 1 min read

Bleikjan ætti að vera mætt

 

Vaknaði klukkan sex, kastaði klukkan hálf átta, veiddi þar til ég varð svangur og fór þá heim. Þetta er stutta lýsingin á tíðindalausri veiðiferð í Þingvallavatn. Veðrið var frábært. Lofthiti var um átta gráður þegar ég kom á Þingvelli, hægur andvari að suðvestan og sólin braust í gegnum skýin öðru hvoru.

Ég var að vonast eftir fyrsta fiski sumarsins en hann verður víst að bíða næstu veiðiferðar. Ég byrjaði á að reyna fyrir mér rétt norðan við Ólafsdrátt. Kastaði þar í rúman einn og hálfan tíma með engum árangri. Rétt fyrir hálf tíu tróð ég mér í gegnum kjarrið upp á veg og ók í Vatnskot. Þar voru átta veðimenn að reyna fyrir sér og ég sá níundi. Þar kastaði ég í tvær og hálfa klukkustund og gerði ekkert nema glata flugum. Þennan tíma sá ég engan af þeim veiðmönnum sem þarna voru landa fiski. Á bílastæðinu hitti ég mann sem var búinn að koma í einhver skipti í vor í vatnið. Hann sagði að vorið hafi verið lélegt. Bleikjan ætti samt að vera mætt en sennilega er vatnið bara enn of kalt.



Commentaires


bottom of page