Þingvallavatn 14. júlí 2024
- Þorkell Daníel Jónsson
- Jul 14, 2024
- 2 min read
Ég held að núna hætti ég að veiða

Já, núna mér er eiginlega skapi næst að hætta þessu bara. Sagan á bak við þennan pirring hefst á því að ég kaupi mér nýja flugustöng því ég braut toppinn á Sage stönginni minni í fyrra. Eftir að hafa beðið í heilt ár eftir að Sage sendi nýjan topp gafst ég upp á biðinni og keypti mér vandaða Orvis flugustöng í Vesturröst. Daginn eftir að ég keypti stöngina hringir Veiðihornið og bíður mér nýja flugustöng á góðum afslætti. Sage gat nefnilega ekki útvegað efni í gömlu stöngina mína og þar lá skýringin á þessari löngu bið. Þar með átti ég tvær góðar flugustangir fyrir línu átta. Í fyrsta veiðitúrnum með nýju stöngina uppgötva ég að vöðlurnar mínar leka. Að vera blautur að veiða er frekar ónotalegt svo ég ákvað að kaupa mér nýjar vöðlur. Vöðlukaupin fjármagna ég með því að selja Sage stöngina.
Við hjónin erum á kafi í að smíða sumarhús í Borgarfirðinum og þess vegna var það ekki fyrr en núna á sunnudaginn sem ég fór fyrstu ferð í Þingvallavatn. Með nýja stöng og í nýjum vöðlum. Það gerist ekki betra. Veðrið var reyndar ekkert til að hrópa húrra fyrir. Rigning og sunnan strekkingur. Mér leið samt ljómandi vel við veiðarnar því ekki var ég blautur í nýju vöðlunum og það var hrein unun að kasta með nýju stönginni þrátt fyrir vindinn. Ég byrjaði á að reyna fyrir mér á þeim tveim stöðum sem ég veit að gefa stundum fisk þarna sunnan við Arnarfellið. Ég varð ekki var svo ég ákvað að ganga suður með austubakkanum í átt að Miðfelli. Ætlaði síðan að veiða bakkann til baka í rólegheitunum.

Mér hefur fundist að jafnvægið sé orðið eitthvað minna en áður var. Þess vegna fer ég sérstaklega varlega í Þingvallavatni því botninn getur verið varasamur. Hann er grýttur og stundum dýptkar snarlega og þá er hætt við að maður missi jafnvægið. Ég er til dæmis farinn að nota vaðstafinn sem ég vann í happadrætti á opnu húsi hjá Stangveiðifélaginu fyrir þrjátíu árum. Jæja, ég hefst handa við veiðarnar og fikra mig frá einum stað til annars í norðurátt. Eitt skiptið lá mér við falli þegar ég er að vaða í land. Ég hugsa með mér að þetta séu einmitt aðstæður sem gera vatnið varasamt. Skyndilega er eins og einhver ýti við mér og ég steypist eins og knattspyrnumaður með látum aftur fyrir mig og út í vatnið. Vatn fossar inn um hálsmálið á jakkanum og niður í vöðlurnar. Ég næ nú fljótt að standa upp og hugsa með mér að það dugði ekki að fá sér nýjar vöðlur. Ég kem samt rennandi blautur heim. Þá kemur áfallið. Toppurinn á nýju stönginni hafði brotnað í fallinu. Hmm, núna reynir á þjónustuna hjá Vesturröst og Orvis.
Comments