Þingvallavatn 14. júlí 2018
- Þorkell Daníel Jónsson
- Jul 14, 2018
- 3 min read
Updated: Jun 21, 2022
Vöðluviðgerðir, vesen með flugustöng og fjölgun urriðans

Eftir veiðiferðina í Hítarvatn í síðustu viku var ég orðinn vöðlulaus. Ég þræddi veiðibúðir borgarinnar og kannaði verð og gæði á þessum vaðbúnaði því vöðlur varð ég að fá. Komst að því að gæðin sem mig langar í kosta 70 til rúmlega 100 þúsund krónur. Gæði sem ég þarf miðað við mína veiðiástundun kosta 46 til 60 þúsund krónur. Mér var nú frekar tregt um að eyða öllum þessum pening þannig að ég klifraði upp á háaloft og fann þar tvær gamlar vöðlur. Aðrar þeirra fóru beint í tunnuna en hinar voru skoðaðar betur. Það voru Simms vöðlurnar sem ég lagði fyrir rúmum tveimur sumrum en hef af einhverjum ástæðum ekki haft brjóst í mér til að henda þeim. Eftir að hafa fyllt þær af vatni kom í ljós að það hafði svo sem verið ástæða til að leggja þeim. Þær láku á sex stöðum sýndist okkur hjónum. Það var lagst var í viðgerðir og síðan látið á reyna í Þingvallavatni hvort viðgerðin héldi.
Það var auðvitað rigning þegar við hjónin lögðum af stað morguninn eftir viðgerðirnar og dumbungurinn að okkur fannst alger á Mosfellsheiðinni. Okkur til mikillar gleði var léttara yfir vatninu og um ellefuleitið var bara veðrið orðið frábært. Við ætluðum að reyna fyrir okkur fyrir norðan Arnarfellið. Þegar þangað var komið voru veiðimenn fyrir, gráir fyrir járnum. Við reyndum því veiði á nýjum stað, rétt norðan við þá. Ég var ekki búinn að kasta lengi þegar væn bleikja tekur. Væn fullyrði ég því hún tók verulega vel í stöngina og var á í nokkurn tíma áður en hún slapp. Við gengum fyrir víkina og reyndum veiðar niður undan brekkunni vestan við víkina. Þar gefur oft en ekki þó í þetta sinn. Mennirnir voru þaulsetnir við steininn. Þeir voru eitthvað að slíta upp af fiski. Ég tók eftir því undir lok veiðitímann hjá okkur hjónum að einn af þeim gengur örlítið sunnar með ströndinni og veðrast allur upp. Hann hafði greinilega séð fisk. Við hjónin fórum fisklaus heim en ég ákvað að koma fljótlega aftur og skoða staðinn sem gerði karlinn svona æstan.

Það er altalað núna að bleikjan sem er að fást í Þingvallavatni núna er stærri en áður. Auðvitað veltir maður fyrir sér ástæðunni. Mér þykir líklegt að ástæðan sé styrking urriðastofnsins. Það er öruggt að 80 sentímetra urriði étur punds bleikju og þessum drjólum hefur fjölgað. Þar af leiðandi fækkar bleikjunum sem ná því að verða of stórar fyrir urriðans kjaft. Stóru bleikjurnar hafa síðan stærra rými. Veiðin var róleg í þessari ferð. Ætli það geti verið að bleikjan sé tregari til að taka fyrst eftir að vindáttin breytir sér? Ég veit það ekki en þetta er hugleiðing sem ég heyrði um daginn.
Aftur að vöðlumálunum. Gömlu Simms völurnar héldu vatni þar til vaðið var upp fyrir rass. Ég varð rassblautur. Þegar heim var komið skaust ég í Vesturröst og fjárfesti fyrir 27.900 kr í Orvis Encounter vöðlum. Ég tímdi ekki að kaupa dýrara. Ég get síðan notað gömlu Simms vöðlurnar ef ég fer í veiði í ám þar sem ég þarf ekki að vaða djúpt. Þannig eyk ég endingu Orvis vaðlanna. Í þessari veiðiferð lentum við í leiðinda vandamáli þegar við ætluðum að ganga frá stöngunum. Það var ekki með nokkru móti hægt ná annarri flugustönginn í sundur. Ég leitaði ráða hjá málsmetandi mönnum og fékk eftirfarandi ráð. 1. Fá einhvern hraustan í lið með sér, annar klæðist gúmmíhönskum og heldur um stöngina á meðan hinn eða báðir reyna að snúa hana lausa. 2. Hita breiðari endann. 3. Kæla mjórri endann. 4. Bera WD 40 á samskeytin. Ekkert dugði í okkar tilfelli en á endanum tókst að losa stöngina í sundur með fyrsta ráðinu. Ég held að ráð tvö sé ekki ráð til að reyna því það er mikil hætta á að maður eyðileggi stöngina.
Comentarios