Þingvallavatn 13. júlí 2015
- Þorkell Daníel Jónsson
- Jul 14, 2015
- 2 min read
Ekki vera með of veikan taum.

Um fimmleitið ákváðum við hjónin að skjótast austur í Þingvallavatn og verja kvöldinu við vatnið. Veðrið var ljómandi gott ef frá er talin rigningin sem var ómæld. Við ákváðum að veiða við Nautatanga þótt við þekkjum það svæði lítið. Ef maður ætlar að læra á eitthvað vatn þýðir víst lítið að hanga alltaf á sömu bleiðunni.
Við byrjuðum á því að ganga út á tangann, eða við höldum að við höfum hitt á réttan stað. Í grunnum víkunum var óðinshaninn að sinna sínu og skeytti engu um brasið í veiðmönnunum. Það var blankalogn þegar við byrjuðum að veiða og fljótlega urðum við vör við fisk. Hann var þarna en ekki tók hann. Ég afrekaði það að renna á hálum botninum og steypast á hausinn í vatnið. Það er nú ekki í fyrsta skiptið sem það gerist.
Venjulega tek ég einungis flugustöngina með í Þingvallavatn en að þessu sinni var kaststöngin með. Eiginkonan er enn að læra að kasta flugu og eins og gefur að skilja þá tekur tíma að ná öryggi í köstunum og fá trú á að eitthvað veiðist með þessari aðferð. Það fór nú svo að þarna á Nautatanganum landar hún tveimur bleikjum á lítinn spún en sá sem mundaði fluguna fékk ekki högg.
Þegar við gengum til baka var óðinshaninn enn að sinna sínu í grunnri víkinni til hliðar við hólmann sem við vorum að veiða af. Við ákváðum að koma við á Nesi sem er austan við bílastæðið á leiðinni til baka. Ég hafði lokið veiðinni á Nautatanga með því að slíta og þegar ég skipti um taum var ég bara með fimm punda taum. Nennti ekki að ganga nokkur skref til konunnar til að fá átta punda tauminn. Setti fimm punda tauminn undir og átti eftir að hefnast fyrir það. Á Nesi þreif nefnilega ágætis fiskur fluguna hjá mér en sleit veikan tauminn og ég bölvaði í hljóði. Þarna fannst okkur kominn tími til að fara heim á leið enda orðin hundblaut eftir alla rigninguna.
Comments