top of page

Þingvallavatn 12. júlí 2016

  • Þorkell Daníel Jónsson
  • Jul 12, 2016
  • 2 min read

Einum finnst eitt en öðrum finnst annað.

 

Horft suður yfir Þingvallavatn. Veiðimaðurinn sem sagt var frá gekk bakkann sem sést vinstra megin á myndinni. Hann gekk það langt að hann hefur sennilega verið kominn langleiðina út að Langatanga sem markar suðausturenda þjóðgarðsins. Fjallið við enda vatnsins er Hengillinn og fyrir miðju hans má sjá reykinn frá Nesjavallavirkjun.

Veðurspáin sagði að von væri á blíðviðri og sá litli vindur sem í spánni var átti að blása að suðaustan. Í síðustu ferð minni í Þingvallavatn miðlaði félagi minn þeim fróðleik að vestanátt væri sú alversta til veiða í vatninu. Þennan fróðleik ku hann hafa fengið frá reyndum veiðimönnum þannig að ég taldi að þessar upplýsingar væru mjög svo áreiðanlegar. Norðanáttin átti víst að vera mun betri.


Samkvæmt veðurspánni átti veður til veiða að vera hagstætt á þriðjudeginum 12. júlí. Mjög svo mild suðaustanáttt. Þannig að við hjónin rifum okkur upp eins snemma og kristilegt þykir og vorum tilbúinn um hálf níuleitið á bakkanum sunnan við Arnarfellið. Síðan gerðist ekkert annað allan morguninn en að sólin bakaði okkur miskunnalaust og bæði krían og himbriminn sýndu okkur veiðikúnstir sínar. Reyndar kom veiðimaður um ellefuleitið og stormaði rakleitt út með bakkanum í átt að Mjóanesi. Óð síðan út í vatnið og hreyfði sig ekki þaðan næstu þrjá klukkutímana. Mér þótti allt hans atferli benda til þess að þarna væri maður á ferð sem þekkti til.



Þarna byrjuðum við að kasta. Þarna er ágætis veiðistaður en að þessu sinni gaf hann ekkert. Við færðum okkur fljótlega yfir á bakkann sem sést hægra megin við klettana. Sílableikjan tók spúninn þar. Fjallið vinstra megin við trjáþyrpinguna er Búrfell og hægra megin við trén glittir í topp Ármannsfellsins.

Við hjónin héldum okkur lengst af á malarbakkanum undan Arnarfellinu og nutum útiverunnar í sumarblíðunni. Okkur varð ekkert ágengt í veiðinni fyrr en ég tók kaststöngina. Við vorum að prófa nýja línu sem á að vera þeim eiginleikum gædd að það kemur enginn vindingur í hana þótt oft sé kastað. Línan er ofin þannig að áferðin á henni er eins og um tauefni sé að ræða. Á enda línunnar hnýtir maður síðan tauminn. Ég kastaði spún nokkrum sinnum og vissulega virkaði línan eins og hún á að gera. Í einu kastinu tók bleikja. Hún reyndist vera 1,5 punda sílableikja



Um miðdagskaffið héldum við heim á leið. Við bílinn hittum við fyrrnefndan veiðimann og það reyndist rétt ályktað hjá mér. Hann var ekki aldeilis að veiða þarna í fyrsta sinn. Sagði að hann færi yfirleitt á þennan sama stað og kæmi aldrei fisklaus til baka. Í pokanum hjá honum lágu þrjár sílableikjur sem tóku litla svarta flugu. Þar sem maðurinn þekkti vatnið þá innti ég hann eftir því hvað væri versta vindáttin til að veiða í vatninu. Hann sagðist hafa heyrt að það væri norðanátt. Ég gat þá ekki annað en hlegið og sagði honum að ég hefði heyrt að vestanátt væri slæm en norðanáttin hreint ágæt. Þá hló hann og sagði að svona væru sögurnar. Hann hafði einnig heyrt að rauðar flugur dygðu ekki neitt í vatninu en hans uppáhaldsfluga og sú sem hefði gefið honum mest var einmitt með rauðu í. Lítil púpa með kúluhaus. Búkurinn svartofinn nema aftasti hlutinn var rauður. Hvað vindáttina varðar held ég að eðlilegast sé að álykta sem svo að árangur fari fyrst og fremst eftir því hvar maður er staðsettur við vatnið. Fiskunum fækkar ekkert í vatninu þótt vindáttin breytist en sennilega færa þeir sig til.

Comments


bottom of page