top of page

Örnefnin í grennd við Brautarlæk

  • Þorkell Daníel Jónsson
  • Aug 20, 2016
  • 6 min read

Updated: Aug 20, 2022


Brautarlækur á Sólríkum sumardegi 1996. Hammsmúlinn í baksýn til vinstri og Sanddalur til hægri.

Brautarlækur er lítill kofi sem stendur á 1,7 hektara landskika í landi Króks í framdal Norðurárdals í Borgarfirði. Staðnum kynntist ég fyrst haustið 1986 þegar eiginkonan dró mig þangað til að smala fyrir Öllu á Hreimstöðum. Eftir því sem árin hafa liðið hafa böndin orðið sterkari. Smá saman hef ég kynnst náttúrufarinu betur og einnig sögunni í gegnum ótal frásagnir tengdaföður míns af lífsbaráttu fólks á staðnum á síðustu öld. Á þessum stað eru rætur eiginkonu minnar. Í Króki ólst hún að mestu upp eða þar til foreldrar hennar hættu búskap. Hér liggur ævistarf föður hennar og móður, afa hennar og ömmu og dalurinn geymir væntanlega einnig sögu fjarlægari forfeðra. Dætur mínar tvær hafa haft ómælda ánægju af þeim stundum sem fjölskyldan hefur dvalist þarna fjarri erli borgarlífsins. Sjálfur finn ég að eftir því sem handtökum mínum fjölgar þarna styrkjast tengslin við staðinn. Ef til vill vegna þess að þá finnst manni að maður sé orðinn hluti af sögu staðarnis og staðurinn vera orðinn hluti af manni sjálfum.

Myndin er tekin frá Fiskivatnsborgum sem eru á Grjóthálsi. Grjótháls skilur Norðurárdal og Þverárhlíð að.

Annars átti þessi grein ekki einungis að fjalla um lífið á staðnum heldur örnefnin frá norðvestri til norðurs. Það er nefnilega óskemmtilegt að þegar gesti ber að garði að geta þá, rétt eins og Lási kokkur þegar hann var spurður um Esjuna, lítið annað um fjöllin sagt en að þau hafi verið þarna nokkuð lengi. Það væri illt afspurnar. Þegar horft er til norðvesturs er fjallið Baula mest áberandi. Það er strítulaga 936,6 m hátt líbarítsfjall. Árið 1993 gekk ég í blíðskaparveðri á fjallið með Guðrúnu konu minni. Í minningunni var þetta eins og að ganga upp endalausar tröppur enda fjallið stórgrýtt mjög. Svitinn bogaði af okkur en laun erfiðisins voru ríkuleg þegar upp var komið. Útsýnið hreint stórkostlegt. Best er að ganga á fjallið að mér skilst frá öxlinni á milli Mælifells og Baulu. Við gengum upp hlíðina eilítið vestar og höfum sennilega gert okkur erfiðara fyrir með því þar sem grjótið efst í fjallinu var laust í sér og rann undan fótum okkar í hverju skrefi. Fyrst var gengið á Baulu árið 1851 en það var Halldór Bjarnason hreppstjóri á Litlu-Gröf sem það gerði. Ef satt er þá þykir mér merkilegt hversu seint gengið var á Baulu en sennilega hefur fólk hér áður fyrr ekki verið að hlaupa á fjöll nema nauðsyn ræki það til þess.


Fjallið næst Baulu og norðan við það er 777 m hátt og heitir Mælifell. Eitt af tólf fjöllum á Íslandi sem bera það nafn. Ekki er ólíklegt að Mælifellið hafi fengið nafn sitt vegna þess að það hafi verið viðmiðun ferðalanga sem áttu hér áður fyrr leið um þjóðleiðina yfir í Dalina eða á Vestfirði. Þjóðleiðin sú lá einmitt meðfram Mælifellinu um Bjarnadal sem er handan við þá hlið Mælifellsins sem sést á þessari mynd. Þegar Mælifellinu sleppir tekur Baulusandurinn við og Litla Baula sem er 839 metra há og Skildingafell.


Áin sem liðast niður dalinn er hin rómaða laxveiðiá, Norðurá. Sunnan við hana er bærinn Háreksstaðir og grjóthóllinn niður við ána austast á myndinni heitir Beinhóll. Undir Beinhólnum var góður laxveiðistaður lengi vel. Norðan við ána sést í endann á Hvammsmúlanum. Hvammsmúlinn endar við gil sem Litlaá hefur grafið. Handan við gilið má sjá móta fyrir lækjarfarveg. Tengdafaðir minn sagði mér að meðfram þessum lækjarfarveg hafi verið slóði sem var kallaður Langa gata því slóðinn var fetaður upp í svokallaðan Fellaflóa en hann var heyjaður áður fyrr. Það er hreint magnað hvað menn lögðu mikið á sig fyrir heyfenginn. Annars má einnig velta fyrir sér hvort heitið á dalnum sem Baulan, Mælifell og Litla Baula ramma inn sé vísbending um að jafnvel alla leið þangað hafi verið sótt til heyja. Sátudalur heitir dalurinn og þar á Dýrastaðaá upptök sín.

Þessi mynd áframhaldandi sýn frá Fiskivatnsborgum. Hér er horft beint í norður.

Fyrir miðri mynd hér fyrir ofan er Sanddalur. Eftir honum rennur Sanddalsá. Innarlega í Sanddal gengur Mjóidalur fram í Sanddal. Ef maður gengur inn Mjóadal endaði för við Illagil. Ef maður næði nú að fikra sig inn Illagil og áfram til fjalla endaði maður við Grafartinda. Sennilega eru það Grafartindar sem sjást beint upp af Hvammsmúlanum sem er vestan megin við dalinn. Beint ofan við botn dalsins er Sandur og horft þaðan til norðausturs sér á Tröllakirkju 1001 metra háa. Suður af Tröllakirkju eru síðan Snjófjöllin.


Sagan segir að um og eftir landnám hafi tröll safnast saman við Tröllakirkju til að ráða ráðum sínum vegna sífellt meira ónæðis af búsetu manna í landinu. Um þverbak keyrði síðan þegar landsmenn taka upp kristna trú. Þegar byggð var kirkja á Stað í Hrútafirði ákvað tröllkerling ein sem bjó í grennd við Tröllakirkja að taka til sinna ráða og kastaði grjóti á hana þegar fyrst var messað í kirkjunni. Ekki tókst henni ætlunarverk sitt því grjótið lenti í hestagerði og drap þar fjögur hross. Eftir þetta ákvað kerlingin að flytjast búferlum og flutti sig norður á Strandir þar sem meira næði var. Ekki hafa neinar fregnir verið af tröllum við Tröllakirkju síðan.


Á góðviðrisdegi í agúst 2009 við Illagil. Þarna inn eftir er sennilega ekki auðfarið þegar eitthvað er af vatni í ánum.

Mér þótti ekki búsældarlegt í framdalnum þegar ég kom hingað fyrst. Nöpur norðanáttin nístir merg og bein þegar hún kemur æðandi niður Sanddalinn. Mann undrar ekki að um framdalinn var einu sinni kveðið.


Norðurárdalur næsta svalur fremra. Una engar jómfrúr þar, allt eru tómar kerlingar.


Nú er svo komið að búskapur hefur lagst af á efstu bæjunum í Norðurárdal en svo var ekki um aldamótin 1700 þegarbæjarvísurnar voru kveðnar.


Hvamminn byggir herlegt fólk með helga trúna. Að Galtarhöfða geng ég núna. Þar gerist lítil taðan túna.


Innst í dalnum seggir sjá hana Sanddalstungu. Á Geststöðum garpar sungu. Glaðlynd þjóð í Sveinatungu.


Mörkrók einn og Háreksstaði hér má finna. Á Hólnum gerir hann Halldór vinna, hans er Margrét eiginkvinna.


Vestan megin við Sanddalinn og Hvammsmúlann eru kirkjujörðin Hvammur og austan megin við dalinn og Sveinatungumúla er landnámsjörðin Sveinatunga. Bærinn Hvammur var færður þar sem hann stendur í dag eftir að snjófljóð féll á bæinn árið 1808 og sonur prestshjónanna fórst. Í Sveinatungu stendur elsta steinhús í sveit á Íslandi. Það standa engin bæjarhús eftir inni í Sanddal en þar voru áður þrír bæir. Galtarhöfði vestan við Sanddalsá, Geststaðir austan við ána og Sanddalstunga í botni dalsins. Núna eru nokkrir sumarbústaðir í dalnum.


Sunnan við Norðurá eru bæirnir Krókur, Háreksstaðir og Hóll. Ekki er lengur búskapur á Króki og Háreksstöðum en búskapur er enn á Hóli. Innan við Krók má greina rústir Blesastaða sem var bær Þorbjörns blesa. Sögur segja að sonur hans, Gísli, hafi átt sér bæ á Háumelum og að Gíslavatn sé við hann kennt.


Þegar ég kom fyrst að Brautarlæk fyrir 28 árum síðan langaði mig til að prófa að setja niður einhver tré. Hafði samt litla trú á að slíkt skilaði einhverjum árangri enda fljótt á litið fátt sem benti til þess að trjágróður ætti þarna viðreisnar von. Enginn gróður í nánd sem reis hærra en fáeinar hnéháar víðihríslur við Brautarlækinn. Ég viðraði þessa ósk mína við tengdaföður minn og leyfi til gróðursetningar var auðfengið. Ekki gaf hann mér miklar vonir um hraðan og öruggan vöxt. Hann vissi af fenginni reynslu að landið er erfitt til ræktunar. Hann hafði samt sögu að segja.


Birkihríslan í vegkanntinum er eina tréð sem stóð af sér vegalagninguna.

Til hlés við norðanáttinni á bak við íbúðarhúsið í Króki voru nokkur myndarleg grenitré og í vegakantinum eftir að komið er yfir brúna á Norðurá stóð einmana birkihrísla. Trén á bak við íbúðarhúsið höfðu ekki alltaf vaxið þar heldur var þeim forðað þangað þegar vegurinn sunnan megin við Norðurá var lagður. Tengdaforeldrar mínir höfðu gróðursett tré út á klöpp sem slútir yfir Norðurá rétt neðan við bæinn í Króki. Þegar vegurinn var lagður þurfti Vegagerðin endilega að sækja sér efni í veginn undan trjánum. Nokkrum trjám var bjargað og þau sett niður á bak við bæjarhúsið. Nokkur tré voru síðan sett niður við bæinn Hraunsnef neðar í dalnum. Birkihríslan í vegkanntinum er eina tréð sem stóð af sér vegalagninguna.


Gamli maðurinn hafði sem sagt reynslu af gróðursetningu hér í framdalnum og vissi að hún gæti gengið. Annað benti hann mér á en það var birkið í Hvammsmúlanum. Hann vildi meina að hlíðin sunnan við Norðurá hafi verið skógi vaxin rétt eins og hlíðarnar norðan megin við ána. Skýringin á hvers vegna einungis tré væru í Hvammsmúlanum taldi hann vera þá að kirkjujörðin hafði víða rétt til hrístekju og gat sparað skógarhögg í eigin landi. Til dæmis hafði Reykholtskirkja rétt til hrístekju í Sanddal en vitað er að hann var skógi vaxinn. Hann benti mér einnig á að skoða skurðinn sem Brautarlækurinn hefur grafið. Skurðurinn er vel djúpur á köflum og ofan í honum má finna myndarlegustu trjáboli. Þannig að það var full ástæða til að láta á skógræktina reyna.


Femst á myndinni er klöppin sem búið var að planta trjám á en vegavinnumennirnir vildu endilega skafa jarðveginn undan trjánum.

Það er ánægjulegt frá því að segja að núverandi eigandi jarðarinnar Króks hefur á undanförnum árum stundað skógrækt á jörðinni og sett niður tugþúsundir trjáa. Árangurinn verður sýnilegri með hverju sumrinu sem líður. Eigendur Sveinatungujarðarinnar hafa einnig stundað skógrækt sem er greinilega farin að bera árangur. Við litla kofann okkar við Brautarlækinn hafa trén vaxið upp hægt og bítandi og nú er svo komið að trén eru farin að mynda skjól fyrir kaldri norðanáttinni. Hver veit nema maður verði umvafinn skógi í ellinni hér við sporð Holtavörðuheiðarinnar?


Ekki er nú alltaf kalsöm norðanátt í Norðurárdal fremra. Oft er hér indælisveður samanber:


Við Brautarlæk um bjarta nótt bifast ei strá í vindi. Hljótt liðast lækur, allt er rótt, hér er þitt líf og yndi.


Það er svo sannarlega sumarfagurt í framdalnum. Trjágróðurinn vex hægt og bítandi.


Comments


bottom of page