Ónefndu vötnin 10. - 12. ágúst 2023
- Þorkell Daníel Jónsson
- Aug 13, 2023
- 2 min read
Updated: Apr 17, 2024
Alltaf á röngum stað

Ég var þess fullviss að það væri ástæða til að taka búnað til flökunar með í árlega ferð Smíðaklúbbsins í ónefndu vötnin. Þess vegna brýndi ég flökunarhnífinn svo hann rynni eftir hrygg silunganna líkt og um smjör væri að ræða og flökin röðuðust síðan hratt og örugglega í kæliboxið að loknum veiðidegi. Flestar veiðiferðir í vötnin gáfu tilefni til slíkrar bjartsýni.
Við mættum á svæðið um tvöleitið á fimmtudegi og fórum beint til veiða vegna þess að sumarhúsið sem við leigðum var ekki tilbúið til afhendingar. Við skiptum okkur að venju í tvennt. Eldri borgararnir í hópnum fóru í Vallavatn en við þeir yngri í Arnarvatn. Fullur bjartsýni hóf ég fluguköstin út frá tanganum í Arnarvatni sem hefur að minnsta kosti í þrígang gefið mér ágæta veiði. Að loknum deginum þótti mér aumt að vera einungis með þrjá frekar smáa urriða að lokinni þessari fyrstu vakt. Félagi minn stóð sig ekki betur og var einungis með einn. Eldri borgararnir gerðu hins vegar ágæta veiði í Vallavatni. Á föstudagsmorgninum fór ég í Vallavatn og átti nú von á einhverjum tökum í ljósi ágætrar veiði eldri borgara deginum áður. Um tvöleitið var félagi minn kominn með þrjá eða fjóra silunga og ég ekki neinn. Áfram var staðan aum. Eldri borgarar fóru í Harðarvatn og stóðu seig ekki betur. Náðu einni flundru. Seinni partinn á föstudeginum fórum ég og veiðifélagi minn í Harðarvatn en eldri borgarar í Vallavatn. Eldri borgarar náðu nokkrum silungum á land og einum ál en við engum. Síðasta vaktin var á laugardagsmorgninum og leikurinn frá morgninum áður var endurtekinn nema að nú vorum við allir í Arnarvatni. Það er víst bara þannig að stundum er maður alltaf á röngum stað.
Það var ágætis veiðiveður þessa daga. Hiti var 11 – 13 gráður og kul frá ýmist norðaustri eða norðvestri. Stundum datt hann í logn. Það hefur greinilega ekki rignt mikið á þessu svæði undanfarið því við höfum aldrei séð jafnlítið vatn í þeim í ferðum okkar í vötnin. Ef til vill voru það veiðiaðstæður sem ollu tregðunni eða tímasetningin. Við höfum alltaf verið aðeins fyrr að sumri í vötnunum.
Commentaires