Ónefnd á
- Þorkell Daníel Jónsson
- Aug 4, 2015
- 2 min read
Hún er ein af þessum smáám á Íslandi sem geymir lax.

Hún er ein af þessum smáám sem láta lítið yfir sér en geyma samt lax. Fyrir fáeinum árum var áin fyrst og fremst bleikjuveiðiá en síðan varð eitthvað til þess að lax fór í meira mæli að ganga í ána. Mér er minnistætt að fyrir ekki nema átján árum skruppum við hjónin með flugustöng í einn hyl fyrir neðan bæinn og á stuttum tíma settum í ellefu bleikjur. Núna er hending að maður fái bleikju í ánni.
Í þessari á eins og í svo mörgum ám hefur bleikjuveiðinni dalað mjög hin síðari ár. Það er ekki vitað fyrir víst hvernig á því stendur en grunur beinist að hækkandi hitastigi. Hin síðari ár hefur lax gengið í auknum mæli í ánna. Þó ekki í þeim mæli að áin beri einhverja veiði að ráði. Sennilega væri samt hægt að auka veiðina í ánni með ræktunarstarfi ef bændur hefðu áhuga á því.
Á sunnudaginn var fengum við hjónin að skreppa í ána. Við vissum svo sem að þetta væri fullsnemmt því laxinn gengur seint í hana. Það tekur því varla að reyna fyrr en upp úr miðjum ágúst. Okkur fannst samt líklegt að einhver fiskur væri genginn upp því ekki hefur vatnsleysið háð laxinum þetta sumarið.
Rölt okkar upp með ánni var svitaganga því veður var með allra besta móti. Hlýtt, sól og logn. Á einum stað á leiðinni sáum við smálax. Við báðum hann um að bíða þarna þangað til við kæmum til baka því við vorum búin að ákveða að byrja veiði í bleikjuhylnum og veiða frá honum upp ánna.
Bleikjuhylurinn er sá hylur í ánni sem best hentar til fluguveiða. Karlinn fékk því forgang að hylnum með flugustöngina sína. Setti hægsökkvandi línu undir, 60 sentímetra taum og fluguna Hörpu. Fljótlega tók fiskur fluguna. Ekki var hann stór en ágætur samt. Þetta reyndist vera bleikja en því miður slapp hún. Strax í næsta kasti tók lax sem einnig slapp. Smá nart og síðan var allt búið.

Við héldum áfram upp ána og könnuðum hvern veiðistaðinn á fætur öðrum. Engan fundum við fiskinn þar til við vorum komin svo langt sem hægt er að komast. Inni í þröngu gili fellur ófiskgengur foss niður í þröngan hyl. Ef það tekur fiskur þarna er ekkert annað að gera en að dauðþreyta hann í hylnum og reyna síðan að grípa hann ofan af mjórri syllu. Karlinn skaust upp í þennan fosshyl og það tekur lax í öðru kasti. Eftir nokkra baráttu er ákveðið að reyna að leiða hann að syllunni og konan á að smeygja háfinum undir hann. Það reyndi aldrei á þetta því laxinn rauk upp að fossinum stökk og sleit.
Á leið niður með ánni vitjuðum við laxins sem ætlaði að bíða okkar en hann sveik loforðið og var horfinn á braut.
Comments