top of page

Vötnin ónefndu 7. - 9. júlí 2022

  • Þorkell Daníel Jónsson
  • Jul 11, 2022
  • 2 min read

Updated: Aug 13, 2023

Hann blés hressilega.

 


Veiðideild Smíðaklúbbsins Granda fór í sína tuttugustu veiðiferð dagana 7. – 9. júlí 2022. Samkvæmt Veðurstofunni átti veðrið að vera æði misjafnt þessa daga og ekki byrjaði það vel því send var út veðurviðvörun vegna roks á fimmtudeginum. Vindurinn átti síðan smátt og smátt að ganga niður á föstudeginum og eftir það átti að vera ágætis veður.


Við leigðum hús í grennd við vötnin og þegar við mættum á svæðið um eittleitið var veðrið orðið snælduvitlaust. Það stoppaði okkur ekki og haldið var til veiða þegar búið var að losa bílana. Fyrir nærsýnan gleraugnaglám eins og mig var þetta skelfilegt og í tvígang mátti ég taka á sprettinn á eftir gleraugunum. Merkilegt að þau skyldu koma heil út úr þessu. Ég varð að gera mér að góðu að veiða gleraugnalaus því ekki héldust þau á nefinu. Ég byrjaði á gamalkunnum stað á tanganum í Arnarvatni á meðan félagi minn veiddi í víkinni sem Örn heitinn veiddi svo vel í í ferðinni 2020. Þegar út á tangann var komið voru slík læti í veðrinu að þar var varla stætt. Enda fór svo í eitt skiptið að vindkviða kom mér að óvörum og feykti mér um koll. Ég steyptist fram fyrir mig og skall á magann í vatnið. Sem vetur fer var grunnt þar sem byltan varð.


Skálað fyrir föllnum félaga og fyrri veiðiferðir Smíðaklúbbsins Granda rifjaðar upp.

Fljótlega fór fiskur að taka grimmt. Ég endasentist á milli þeirra tveggja stanga sem ég var með úti og eftir um það bil þriggja tíma veiði var ég kominn með tólf ágæta urriða. Þegar ég síðan kem í víkina þar sem félagi minn var enn við veiðar segir hann farir sínar ekki sléttar. Nákvæmlega sama hafði hent hann. Vindkviða sem hann fékk beint í fangið feykti honum um koll svo hann endasentist á bakið í vatnið. Á meðan við vorum að brasa við veiðar við þessar ómögulegu aðstæður var þjóðveginum lokað því það þótti of varasamt að vera á ferð í þessu veðri.


Um kvöldið var skálað fyrir föllnum veiðifélaga og vini því félagi Örn féll frá snemma í vor eftir baráttu við erfið veikindi. Við rifjuðum upp fyrri veiðiferðir Smíðaklúbbsins en þær eru orðnar þónokkuð margar. Samkvæmt skráningum tölfræðisérfræðing hópsins eru ferðirnar orðnar tuttugu og í þeim hefur 908 silungum verið landað.

Þessi veiðibjalla var að voma í kringum okkur. Ætli hún hafi tekið bleikjuna?

Veðurstofan var alveg með þetta því spáin virtist ætla að ganga eftir. Vindur var heldur minni á föstudeginum en hann gekk niður eftir því sem leið á morguninn. Hann var samt ansi sterkur. Þennan morgun náði ég að landa sjö silungum í Harðarvatni. Þeir fengust á tanganum fyrir miðju vatni en þar höfðu félagar okkar veitt í bálviðrinu deginum áður. Tveir af silungunum hjá mér voru bleikjur og á dularfullan hátt hvarf ein þeirra. Grunur beinist að varginum. Sennilega hefur veiðibjalla eða minnkur gert sér hana að góðu.


Eftir hádegið á föstudeginum datt vindurinn niður í dúnalogn. Því miður var það ekki bara vindurinn sem datt niður því það gerði veiðin einnig. Silungurinn hætti að taka. Þegar upp var staðið hafði ég landað nítján silungum og hópurinn sextíu alls.


Arnarvatn. Ef við hefðum gefið þessu lengri tíma á laugardeginum hefðum við án efa náð að landa einhverjum silungum. Ég fékk nart báðum megin við gryningarnar sem ég stend á.



Comments


bottom of page