top of page

Vötnin 17. júlí 2017

  • Þorkell Daníel Jónsson
  • Jul 17, 2017
  • 3 min read

Updated: Aug 13, 2023

Veiðin var engin skröksaga.

 


Smíðaklúbburinn hefur öðru hvoru lagt frá sér smíðatólin og farið saman í veiðitúr. Aflabrögðin hafa verið misgóð en allar hafa ferðirnar verið eftirminnilegar. Á vetrarfundum klúbbsins undanfarin ár hefur aldursforsetinn talað fjálglega um vatnaklasa einn utan alfararleiðar. Vötnin gefa alltaf fisk og sumir eru vænir segir hann. Þessi vötn eru veiðiparadísin hans og hafði hann hug á að kynna hana fyrir okkur hinum. Vötnin eru langan veg frá höfuðborginni þannig að aldrei létum við slag standa.


Aldrei skyldi þó segja aldrei því ég fékk hringingu frá einum smíðaklúbbsmeðlima þar sem ég var staddur í sumarkofanum nýkominn af Hólmsheiði. Nú skyldi láta verða af því. Á ókristilegum tíma miðvikudagsmorguninn 18. júlí lögðum við af stað í langferðina að vötnunum. Við stefndum að því hefja veiði seinnipartinn, sem við síðan gerðum.


Veðrið á miðvikudeginum var hálfgerður óskapnaður. Herjans rok og rigning. Eiginlega hundleiðinlegt fyrir fluguveiðimennina í hópnum. Þar sem við byrjuðum veiðar stóðu fimm vötn í röð. Að sjálfsögðu var aldursforsetinn löngu búinn að kasta þegar hinir voru búnir að gera sig klára og drösluðust niður að vatni eitt. Í þetta sinn var hann meira að segja búinn að landa fyrsta silungnum. Við skiptum vötnunum með okkur, skólastjórarnir í hópnum veiddu vatn númer tvö og þrjú en kennararnir veiddu vatn númer fjögur og fimm. Þótt það væri önugt að beita flugunni í þessu veðri verðum við ekki sakaðir um að hafa ekki reynt. Við börðum vötnin stöðugt með flugunni, skiptum sífellt um flugur, reyndum með engum sökktaum, reyndum tíu feta sökktaum og að lokum sótti ég steinsökkvandi línu. Til að auka líkurnar á að ferðin gæfi fisk í soðið létum við letingja liggja á meðan við gengum bakkana með fluguna.



Fljótlega hlóp urriði á færið hjá mér og reyndist það vera 3,5 punda fiskur. Hið sama gerðist hjá félaga mínum. Eitthvað var að sýna flugunni hjá mér athygli og á endanum grípur rúmlega punds bleikja Svartan nobbler. Ég færði mig í vatn tvö og þar tekur annar vænn urriði agnið. Félagi minn landaði þremur ágætum urriðum í vatni þrjú.


Kennaragengið sem hafði haldið sig í neðri vötnunum tveimur kom til baka sáttir við sig. Aldursforsetinn hafði náð 8 silungum á land og félagi hans landaði 7 silungum, nokkrir þeirra tóku Gyðinginn. Nei, Gyðingurinn er ekki fluga heldur fifferí með spún sem ég nenni ekki að útskýra. Aldursforsetinn tilkynnir okkur að túrinn sé keppni milli kennara og skólastjóra. Sagði okkur reyndar ekki frá þeirri keppni fyrr en við bílinn eftir miðvikudagsvaktina enda hefur hann þá verið öruggur um sigur. Staðan var 15 – 6 fyrir kennarana.


Sá í hópnum sem svæðið þekkti hafði áhuga á því að nota tækifærið því við vorum á jeppa að skoða vatn sem hann hafði ekki skoðað áður. Við ókum þess vegna á morgunvaktinni á fimmtudeginum svo langt sem við komumst á bílnum og gengum niður að vatninu. Það er sæmilega stórt en grunnt svo botngróðurinn var okkur til ama. Þarna landa ég fjórum urriðum og missti þann fimmta sem tók Íslandsspúninn. Annars var spúnaveiðin sama marki brennd og fluguveiðin. Silungurinn var mjög tregur til að taka. Ég var búinn að spúna töluvert þegar ég prófaði að setja beitu á krókinn og þá tók hann. Eftir þessa vakt var staðan 19 – 12 fyrir kennarana.


Þriðja vaktin hófst klukkan eitt á fimmtudeginum. Kennararnir tóku vötnin fimm en skólastjórarnir könnuðu efsta vatnið í þessum vatnaklasa. Það vatn er nokkuð stórt og djúpt á köflum. Félagi minn gekk beint niður að vatninu frá þeim stað sem við lögðum bílnum en ég gekk fyrir vatnið út á tanga sem skagaði út í vatnið. Af tanganum var þægilegt að kasta í allar áttir og nú voru kjöraðstæður til fluguveiða. Nema silungurinn vildi ekki fluguna. Það var smávegis bið eftir því að silungur gripi agnið eða þar til ég lét það liggja við malarkamb sem er til þess að gera nálægt bakkanum. Þar fékk ég tvo urriða. Silungurinn í þessum vötnum hefur greinilega nóg æti því hann er vel haldinn. Þegar við skoðuðum hvað þeir höfðu verið að éta voru þeir yfirleitt troðfullir af kuðungum og einstaka hornsíli höfðu þeir einnig sporðrennt. Ég prófaði að setja hornsíli undir og þá kom flugufiskur tvö. Fleiri urðu þeir ekki hjá mér í þessari ferð. Af tanganum landaði ég átta urriðum og endaði túrinn með 14 ágæta urriða og eina bleikju.


Á meðan ég dundaði mér á tanganum var félagi minn staðfastur við veiðar þar sem hann kom fyrst að vatninu. Það kom mér ekki á óvart þegar ég sé hvað hann var að voma yfir. Í víkinni hafði hann séð nokkrar gríðarstórar bleikjur sem höfðu bunkaði sig í víkinni. Þremur eða fjórðum þeirra náði hann að landa á flugu. Sú stærsta reyndist vera fjögur pund.



Um sjöleitið hættum við veiðum og héldum heim á leið. Samkeppni skólastjóra og kennara lauk með sigri skólastjóranna sem löndðu 29 urriðum. Kennararnir lönduðu 26. Sögur aldursforsetans um veiðina í þessum vötnum var sem sagt engin skröksaga.

Comments


bottom of page