top of page

Veiðivötn 24. og 25. júlí 2013

  • Þorkell Daníel Jónsson
  • Jul 26, 2013
  • 3 min read

Endaslepp veiðiferð

 

Stóra Fossvatn er vatnið til hægri og Litla Fossvatn til vinstri. Við sóttum kælivatn í sprænuna á milli vatnanna.

Við hjónin höfum oft komið öngulsár úr veiðiferð en ég held að veiðiferð í Veiðvötn sem við fórum í í lok júlí sé slái öll met í hrakförum. Ef til vill hefðum við átt að taka klaufaskapinn í upphafi undirbúningsins fyrir ferðina sem fyrirboða um það sem var í vændum og hætta við. Það gerðum við ekki og því fór sem fór. Klaufaskapurinn sem hér er vísað í er að þegar ég setti eldsneyti á díselfákinn okkar fyrir ferðina setti ég bensín á hann en ekki díselolíu. Verkstæðið hjá B og L var svo almennilegt að hreinsa út kerfið með engum fyrirvara þannig að við gátum þrátt fyrir klaufaskapinn farið í ferðina.


Við vorum komin á veiðislóðir rétt eftir hádegi á fimmtudegi og okkur hlakkaði mikið til að hefja veiðar. Vel var tekið á móti okkur og fengum við greinagóðar upplýsingar um svæðið hjá Ragnari veiðiverði enda höfum við aldrei veitt þarna áður. Veðrið í Veiðivötnum var fádæma gott svo sjaldan hefur annað eins þekkst. Við ákváðum að veiða í Breiðavatni fram að kvöldmat og fara síðan í Stóra - Hraunvatn ljúka vaktinni þar. Við veiddum í rúma þrjá tíma í Breiðavatni þar sem lítið gerðist. Ég setti reyndar í einn ágætis fisk en hann hvarf á braut með fluguna þar sem hnúturinn gaf sig.


Um áttaleitið ókum við í átt að Hraunvötnunum og nú fóru hlutirnir að gerast. Á leiðinni datt sjálfskiptinginá okkar ástkæra Landrover úr sambandi og bíllinn hitaði sig. Við sáum að það vantaði vatn á bílinn þannig að við bættum á hann og þegar vélin var orðin köld ókum við aftur af stað. Á næstu hæð var bíllinn aftur orðin ískyggilega heitur. Þarna biðum við í klukkustund eftir að vélinn kólnaði og nýttum tímann til að ganga niður að sprænunni á milli Stóra- og Litla Fossvatns og sækja vatn á flöskur til að setja á bílinn. Á endanum komumst við niður í skál en klukkan var orðin það margt að ekkert annað var hægt að gera en að ganga til náða. Lausnir á vandanum urðu að bíða til morguns.

Beðið eftir að vélin klældi sig. Grænavatn er í baksýn.

Á föstudagsmorgninum kom í ljós að grjót hefur sennilega gatað vatnskassann. Lekinn var það mikill að ekki var forsvaranlegt að reyna að aka bílnum til byggða. Möguleikarnir voru tveir. Að láta sækja bílinn eða reyna að stoppa lekann með einhverju móti. Seinni kosturinn var valinn og með ómetanlegri aðstoð Ragnars og Hermanns, veiðivarðanna í Veiðivötnum, var vatnskassinn rifinn úr bílnum og blindað fyrir einar fjórar pípur. Þegar kassinn var kominn í bílinn aftur hefðum við þannig séð getað haldið áfram að veiða 0en það skal viðurkennast að þessar bílahremmingar höfðu rifið úr manni veiðilöngunina. Um þrjúleitið lögðum við af stað í bæinn.

Eiginkonan skælbrosandi yfir stöðunni. Hvernig er hægt að vera svona jákvæður?

Eftir um það bil þrjátíu kílómetra akstur hætti sjálfskiptingin aftur að virka en að þessu sinni hitaði bíllinn sig ekki. Þegar við litum undir vélarhúddið á bílnum leyndi sér ekki hvað hafði gerst. Slanga sem flytur sjálfskiptivökvann í kælielementið hafði losnaði og vökvinn sprautast um alla vél. Nú var hringt í bjargvætt í bænum sem leigði bílakerru og skutlaðist eftir okkur. Þarna sátum við í sól og hita í þrjár og hálfa klukkustund þar til bjargvætturinn mætti. Bílnum var snarað upp á kerruna og ekið í bæinn. Svona til að kóróna vandræði okkar stöðvaði lögreglan okkur í Garðabænum til að kanna hvort við værum nú með allt á hreinu. Það reyndist vera svo þeir leyfðu ökkur að ljúka för okkar. Mikið lifandis ósköp vorum við fegin þegar heim var komið. Við hefðum átt að taka eldsneytisklúðrið í upphafi sem fyrirboða.



コメント


bottom of page