Urriðavatn 6. júlí 2016
- Þorkell Daníel Jónsson
- Jul 6, 2016
- 2 min read
Það veiðist engin urriði í Urriðavatni

Okkur fannst ekki hægt að yfirgefa Fljótsdalshérað án þess að skoða Urriðavatn. Vatnið er innan veiðikortsins og er staðsett steinsnar frá Fellabæ vestan við brúna yfir Lagarfljótið. Það er einn ferkílómeter að stærð og meðaldýpi þess er sagt 4,4 metrar. Dýpst er það 10,5 metrar. Í vatninu er einungis bleikja þannig að nafngift þess vekur spurnir.
Um kvöldmatarleitið miðvikudaginn 6. júlí ókum við upp að bænum Urriðavatni til að skrá okkur til veiða í vatninu. Þar hittum við á bóndann sem var að bjástra eitthvað útivið. Hann sagði okkur endilega reyna að slíta fisk upp úr vatninu. Eitthvað fannst okkur hann tala með þeim hætti að vonir um árangur væru litlar. Ef til vill voru það bara við sem túlkuðum orð hans þannig því við vorum ekkert vongóð. Höfðum heyrt að besti veiðitíminn væri á vorin og að best veiddist í stillu. Það er komið hásumar og þetta kvöld blés töluverður norðvestan vindur. Við fengum skýringu á rangnefni vatnsins hjá bóndanum. Áður fyrr var urriðinn ráðandi tegund í vatninu en á sjötta áratugnum var virkjað og riðstöðvar urriðans eyðilagðar. Eftir það umhverfisslys veiddist einungis bleikja í Urriðavatni.

Já, við vorum svartsýn og stemmingin einhvern vegin þannig að við vorum alvarlega að spá í að skjótast upp í Skriðdal í Skriðuvatn. Því nenntum við auðvitað ekki þannig að við köstuðum flugu og spún þar sem okkur sýndist Urriðavatn dýpst á garðinum neðan við hitaveitutankinn. Er það ekki annars þannig að þegar hlýtt er þá leitar bleikjan þar sem dýpra er og kaldara? Við erum ekki búin að vera þarna lengi þegar dóttirinn kemur til okkar æst mjög og segir einar fimm bleikjur hafi elt spúninn hjá henni upp í harða land. Nú, jæja. Það var þá fiskur þarna. Fljótlega tekur ein bleikja hjá henni og hún missir aðra. Eiginkonan missir eina ágæta bleikju og ég eina. Skömmu síðar landa ég fjórum bleikjum í röð á púpu sem líkist mjög púpu sem ég hef heyrt kallaða Alma Rún. Svartur búkur, ekkert skott, kúluhaus og appelsínugulur háls.
Comentarios