Tónstigar
- Þorkell Daníel Jónsson
- May 7, 2023
- 3 min read
Updated: Jul 25, 2023

Rétt eins og svo margir, ef ekki allir, sem eru að bögglast við að læra á gítar hef ég spurt mig. Verð ég að eyða tíma í að spila tónstiga? Svarið við spurningunni er nei ef markmiðið er aðeins að spila undir söng með vinnukonugripunum. Ef markmiðið er háleitara þá er svarið allan daginn já. Ef þú ætlar þér að verða lipur gítarleikari þá eru tónstigar ekki eitthvað sem þú sleppir að æfa. Markmiðið með því að æfa tónstiga er ekki að geta spilað þá fyrir aðra. Það hefur nefnilega ekki nokkur maður ánægju af því að hlusta á þig spila tónstiga. Bíðum nú við! Ef enginn hefur ánægju af því að hlusta á tónstiga. Hver er þá ávinningurinn? Hann er margvíslegur. Ef við flokkum hann í þrennt þá er ávinningur fyrir skilning. Ávinningur fyrir minnið og ávinningur fyrir tæknilega færni.
Skilningur
Tónstigi er ekkert annað en safn nótna sem er raðað er saman með ákveðnu millibili þannig að þegar nóturnar eru spilaðar hver á fætur annari hljóma þær vel. Smá saman lærir eyrað að þekkja tónbilin þannig að auðveldar verður að átta sig á í hvaða tóntegund tónverk er sem verið er að spila. Rétt eins og stafrófið er grunneiningin fyrir lestur þá eru tónstigar grunneiningin í allri tónfræði. Hljómar eru byggðir upp út frá tónstigum þannig að ef maður leggur áherslu á að spila og skilja tónstiga þá undirbyggir maður skilning á hljómafræði og tónfræði almennt. Vegna tengsla hljóma og tónstiga er skilningur á tónstigum mjög hjálplegur við tónsmíðar og gerir manni kleift að spila spuna undir hljómagang.
Minnið
Minnið er gloppót og getur orðið fjötur um fót þegar spila á lög og útsetningar. Þetta á sérstaklega við þegar spilað er undir álagi. Lög og tónverk eru samin út frá tónstigum þannig að góð þekking á þeim hjálpa minninu. Séu tónstigarnir æfðir og festir í minni lærast mynstur þeirra á gítarhálsinum. Smátt og smátt innæfast þeir og vöðvaminnið styrkist. Þótt ekki sé hægt að treysta alfarið á vöðaminnið getur verið mikil hjálp í því.
Margur gítarleikarinn hefur spilað á gítar svo árum skiptir án þess að vita hvar allar nóturnar eru á gítarhálsinum. Sé maður duglegur að æfa tónstigana lærir maður hvar grunntónarnir eru og út frá þeim teiknast gripbretti gítarsins upp í huganum.
Tæknileg færni
Að æfa tónstiga er góð leið til að æfa tæknilega færni á gítarinn. Samhæfing beggja handa styrkist og flæðið milli nótna verður öruggara og jafnara. Skipting milli fingra plokkhandarinnar verður öruggari og nákvæmari og ef plokkað er með gítarnögl þá þjálfast færsla á milli strengja og rétt beiting naglarinnar. Að æfa tónstiga er góð leið til að æfa sig í að spila hratt en af nákvæmni á sama tíma. Færni í að spila tónstiga gerir þér kleyft að skreyta tónlistina sem þú ert að æfa með riffum og sólóum sem getur verið ansi skemmtilegt. Síðan veita tónstigar skýra sýn og tilfinningu fyrir árangri sem verður hvatning til að halda áfram.
Nú hef ég gutlað við gítarleik í þónokkuð mörg ár og mikið vildi ég geta sagt að ég hafi gert allt sem hér er boðað, en, nei. Ég hef alls ekki staðið mig. Nú verður breyting á því. Tónstigar verða spilaðir markvisst héðan í frá. Þessari grein var ætlað að svara spurningunni. Hvers vegna ætti ég að æfa tónstiga og svarið er einfaldlega. Vegna þess að það er gott fyrir þig. Næsta spurning er: „Hvernig á að æfa tónstiga?“ Þeirri spurningu verður ef til vill svarað í næstu greinum þegar ég segi frá því hvernig mér gengur með tónstigaæfingarnar.
Comments