Tangavatn 7. júní 2014
- Þorkell Daníel Jónsson
- Jun 8, 2014
- 2 min read
Hlýindi um hvítasunnuna.

Á laugardeginum um hvítasunnuhelgina 2014 var einmuna blíða í Norðurárdal fremra. Svo hlýtt að hundar og menn voru gapandi ef þeir leyfðu sér að hreyfa legg og lið. Það voru einnig mikil hlýindi á föstudeginum svo ég áætlaði sem svo að heiðarvötnin væru orðin nægjanlega heit til að silungurinn færði sig nær bakkanum í ætisleit. Yngri dóttir mín samþykkti að koma með í smávegis heiðarævintýri og um miðaftansbil lögðum við á heiðina. Upphaflega áætlunin var að ganga inn að Djúpavatni. Veiða það og enda í Krókavatni.
Þar sem við feðginin stóðum við Krókavatn hraus okkur hugur við að ganga þennan spöl inn að Djúpavatni. Dóttirin í allt of stórum vöðlum móður sinnar vopnuð gömlu kaststönginni okkar og ég vopnaður Sage flugustönginni, þeirri sem ekki brotnaði í Þingvallavatni í síðustu viku. Gangan yrði þvílík svitaganga í heitri júnísólinni. Við ákváðum því að láta letina ráða ákvörðun og veiddum syðri bakka Krókavatns frá austri til vesturs.

Lengi vel gerðist ekki nokkur skapaður hlutur. Um hálfátta leitið um kvöldið var okkur farið að leiðast þófið og hugurinn farinn að leita heim í Brautarlæk. Ég ákvað að ljúka þessu með því að kasta spinner nokkrum sinnum með kaststönginni, svona rétt til að kanna hvort bleikjan lægi utar en ég náði með flugustönginni. Ég er ekki búinn að kasta oft þegar spinnerinn er gripinn og á land kom falleg bleikja. Þá hófst stutt kennslustund í líffræði fiska því auðvitað var skoðað hvað bleikjan væri að éta. Við ákváðum að pheasant tail flugan kæmist næst því að líkjast því sem væri á matseðli bleikjunnar svo hún var hnýtt á tauminn. Í þriðja kasti er flugan tekin og önnur falleg bleikja lá skömmu síðar á bakkanum. Aftur er kastað og aftur er flugan þrifin. Ég veit ekki hvort þessi var stærri en hinar tvær en hún þreif ansi hraustlega í. Nógu hraustlega til að slíta fimm punda tauminn. Þar fór eina pheasant tail flugan sem ég átti og svo virtist sem bleikjunni hugnaðist ekki annað sem ég hafði að bjóða.
Nú var ákveðið að reyna aftur með spinnernum og markmiðið að dóttirin fengi fisk. Eftir nokkur köst greip bleikja spinnerinn og stelpan landaði þriðju bleikjunni. Nú var klukkan orðin tíu og við ákváðum að halda heim á leið en auðvitað þurfti að stilla upp fyrir myndatöku. Á meðan við vorum að stilla upp þrífætinum bendir dóttirin norður yfir vatnið. Það var svo sem auðvitað, Grána var mætt og fór hratt yfir. Svo hratt að áður en við náðum að taka saman græjurnar vorum við stödd í niða þoku á heiðinni. Vandræðalaust gekk samt að feta slóðann niður á þjóðveg.
Comments