top of page

Tangavatn 18. júlí 2015

  • Þorkell Daníel Jónsson
  • Jul 19, 2015
  • 2 min read

Endalausn norðanátt og kuldi.

 

Af myndinni að dæma mætti halda að það hafi verið ákjósanlegasta veður en svo var aldeilis ekki.

Þrátt fyrir að ekkert hafi slegið á norðanáttina fór fjölskyldan aftur upp á heiði til veiða á föstudeginum. Að þessu sinni var það Tangavatn á Holtavörðuheiði sem varð fyrir valinu. Það vatn þekkjum við eilítið því við höfum fimm sinnum reynt að veiða í þessu vatni.

Í ljósi reynslunnar vorum við ekkert sérstaklega bjartsýn á að fá fisk því við vitum að það er ekki mikill fiskur í vatninu. Í þrjú af þessum fimm skiptum höfum við þó orðið vör við fisk og tvisvar fengið í soðið. Aðstæður þennan föstudag voru nákvæmlega þær sömu á Holtavörðuheiðinni og voru á Laxárdalsheiðinni á fimmtudeginum. Hvöss norðanátt, hitinn átta gráður þegar við komum upp á heiði og sex gráður þegar við héldum heim.


Tangavatn og Hólmavatn eru ekki ólík vötn að sjá. Dæmigerð heiðarvötn. Vötnin eru bæði með víkur og tanga en Tangavatn er heldur dýpra. Það gruggaðist ekki í rokinu eins og Hólmavatnið. Í Tangavatni er einungis bleikja en í Hólmavatni er bæði bleikja og urriði. Ég held samt að það sé mun meira af urriðanum en bleikjunni í Hólmavatni.


Það fór nú eins og við áttum frekar von á. Við komum fisklaus heim um kvöldið en ekki var þessi veiðiferð alveg tíðindalaus. Lilja kastaði maðki á flotholti af bakkanum á móti vindinum. Kastið var fullkomlega misheppnað því hún kastaði aðeins fjóra metra út í vatnið. Hún dregur inn til að gera betur en rétt við bakkann rífur stór bleikja í stöngina. Furðu lostin stelpan reynir að landa bleikjunni eins og hverjum öðrum smáfiski. Þ.e. sópa henni í einu vetfangi á land. Því miður var bremsan á hjólinu stillt í sitt stífasta þannig að átakið á línuna varð allt of mikið. Svona aðfarir duga víst ekki á þetta stóran fisk og bleikjan reif sig lausa. Lilja fékk í framhaldinu leiðsögn í hvernig landa eigi fiski af stærri gerðinni og við segjum bara: „Það gengur betur næst.“



Comments


bottom of page