Tangavatn 1. júlí 2012
- Þorkell Daníel Jónsson
- Jul 1, 2012
- 2 min read
Sögur frá fyrri tíð.

Haraldur Brynjólfsson heitinn, tengdafaðir minn og fyrrum bóndi í Króki í Norðurárdal í Borgarfirði sagði mér ófáar sögurnar af hvers kyns veiðiskap í grennd við heiðarbýlið Krók. Halli hafði allla tíð mikinn áhuga á veiðiskap enda voru veiðar ríkur þáttur í lífsbáráttunni í Króki. Ein af sögunum tengist Krókavatni eins og hann vildi kalla það en á kortum kallast vatnið Tangavatn.
Tangavatn er lítið vatn skammt frá þjóðveginum efst á Holtavörðuheiði. Spottakorn norður af Tangavatni er annað vatn, Djúpavatn. Að sögn Halla var í eina tíð ljómandi falleg bleikja í báðum þessum vötnum. Því til staðfestingar sagði hann mér frá því þegar hann sem ungur maður starfaði við vegalagningu yfir heiðina. Þá vaknaði hann stundum eldsnemma og skaust upp að Tangavatni til að sækja fisk í soðið. Hann sagði einnig frá því að stundum þegar hann og Gísli bróðir hans voru á leið heim að Króki eftir grenjaleit komu þeir stundum við hjá vatninu og köstuðu fyrir fisk. Afraksturinn var gjarnan þriggja punda bleikjur.
Þar sem ég sit í bústaðnum Brautalæk og hlusta á þessar frásagnir vaknar að sjálfsögðu hjá mér löngun til að sannreyna hvort eitthvað sé hæft í þessumsögnum. Halli taldi að það væri varla erfiðisins virði vegna þess að vötnin væru orðin handónýt vegna rányrkju minnks og manna. Ég ákvað nú samt að leggja á heiðina og skoða vötnin. Skemmst er frá því að segja að ég átti einstaklega ánægjulegan dag á heiðinni í blíðskaparveðri. Í lok dags sýndi heiðin reyndar hvað hún getur verið viðsjárverð. Ég sat í makindum við Djúpavatn að borða nestið mitt þegar ég sé að þykkur kólgubakki kemur úr norðri. Ég ákvað þá að ganga yfir að Tangavatni og koma mér heim í bústað. Þegar ég kem að Tangavatni er komið leiðindaveður og skyggni orðið lítið. Engan varð ég var við fiskinn þannig að ef til vill var það rétt hjá Halla að vatnið hafi verið ofveitt. Eða gæti það verið að blámóða tímans hafi magnað upp veiðisögurnar?
Ég hef nokkrum sinnum farið upp að Tangavatni með fjölskyldunni og alltaf bleytt í færi en aldrei fengið fisk. Reyndar höfum við orðið vör við seiði í vatninu þannig að einhver er fiskurinn. Fyrir nokkrum árum síðan brá svo við að mér leiddist í Brautarlæk og ákvað að bregða mér upp að Tangavatni. Tók að sjálfsögðu með mér flugustöngina en átti ekki von á neinu enda gáfu sögur og fyrri árangur ekki tilefni til þess. Þetta var um miðjan júlí, veðrið var ágætt, smávegis vindur og skýjað. Ég var búinn að dunda mér þarna í þrjár, fjórar klukkustundir þegar skyndilega lægir. Vatnsflöturinn verður spegilsléttur og flugan kemur á kreik. Ég sé að það eru einhverjar uppítökur fyrir framan mig svo ég set þurrflugu undir og kasta á einn hringinn. Flugan er rétt lent í vatninu þegar það er þrifið í hana af krafti. Þarna fékkst saga tengdapabba staðfest. Það var falleg bleikja í Tangavatni. Að minnsta kosti ein því ég hef reynt að veiða í vatninu síðar og ekkert fengið.

Comments