top of page

Selá í Steingrímsfirði 29. og 30. ágúst 2014

  • Þorkell Daníel Jónsson
  • Aug 31, 2014
  • 3 min read

Sjö tökur og fjórum landað.

 

Þessi myndarlegi hani tók á móti okkur við Geirmundastaði en til að komast upp með ánni þarf að aka í gegnum planið á þeim ágæta bæ.

Vatnasvæði Selár í Steingrímsfirði er gífurlega stórt þannig að þegar rignir verður áin fljótt mikil að vöxtum og jafnvel óveiðandi. Því var ekki að heilsa þegar smíðaklúbbur fyrrverandi og núverandi kennara við Grandaskóla gerðu ferð norður á Strandir til að veiða í Selá.

Veðrið var frábært og gott vatn í ánni. Félagar í klúbbnum hafa nokkrum sinnum veitt í ánni og hafa aðstæður verið æði misjafnar í þeim ferðum. Hið sama má segja um árangurinn. Stundum höfum við náð að setja í lax en klúbbmeðlimum virðist fyrirmunað að finna bleikju í þessari fornfrægu bleikjuá.

Fyrir um það bil þremur mánuðum urðu fádæma vatnavextir í Selá. Selárdalur var eins og fjörður á að líta. Óneitanlega velti maður fyrir sér hvort vatnavextir af þessari stærðargráðu hefðu slæm áhrif á veiðina. Veiðibókin í skothúsinu gaf lítið tilefni til bjartsýni. Einungis fimm laxar voru skráðir og vel innan við hundrað bleikjur. Ætli skráning í veiðbókina sé rétt? Við gátum þó huggað okkur við að allar aðstæður voru hinar ákjósanlegustu og til stóð að gera vel við sig í mat og drykk. Það var að minnsta kosti til einhvers að hlakka.


Morgunvaktin á föstudeginum gerði síðan út af við allar vonir okkar. Við sáum ekki einn einasta sporð. Útlitið var ekki bjart en ákváðum að athuga hvort einhver fiskur væri í efri hluta árinnar. Ókum illfæran slóðan svo langt sem Landroverinn komst og gengum síðan áfram upp með ánni. Annar skólastjórinn og íþróttakennarinn vörðu allri vaktinni í að ganga eins langt inn dalinn og tíminn leyfði. Allt erfiðið skilaði þeim engu og komu þeir úrvinda og tómhentir til baka. Orðnir vissir um að áin væri nánast fisklaus. Alls staðar voru merki um vatnavexti vorsins. Áin víða gjörbreytt og hrísið lá flatt eftir beljandi ána langt inn á land. Þegar þeir komu til baka beið tölvukennarinn þeirra og ekki hafði hann verið fengsælli. Sagði þó sögu af smálaxi sem hinn skólastjórinn missti. Nú var kominn tími til að halda heim á leið. Hinn skólastjórinn beið nokkru neðar við slóðann. Í fjarska virtist hann umkomulaus, þeyttur og jafn fisklaus og við hinir. Svo reyndist nú ekki vera því í polli við hliðina á honum lá tíu punda hrygna.


Hér er skyggnst í efri hylinn þar sem tveir smálaxar lágu.

Um kvöldið var ákveðið að reyna aftur daginn eftir á þeim tveim stöðum sem við vissum að fiskur lá. Á efri staðnum voru tveir fiskar en ekki voru þeir viljugir að taka. Megi þeir vel lifa. Á neðri staðnum sem kallast Dimmubakkar voru sennilega nokkrir laxar. Á morgunvaktinni náði skólastjórinn sem gekk inn dalinn að landa fimm punda hæng og tölvukennarinn setti í vænan lax sem sleit. Á seinni vaktinni var aftur rennt í Dimmubakka. Vænn lax tók hjá íþróttakennaranum sem þurfti mikið að hafa fyrir því að ná honum að landi. Einungis síðasta handtakið var eftir þegar laxaskömmin reif sig lausan og synti á braut. Tölvukennarinn setti skömmu síðar í annan lax sem tók hraustlega á honum og landaði síðan eins og um smábleikju væri að ræða. Þessi fiskur reyndist góð níu pund. Ekki má gleyma eina flugufisk ferðarinnar. Það var bleikja, já fyrsta bleikja smíðaklúbbsins í Selá. Sú veiddist í Hermannshyl og reyndist heil 300 grömm. Henni var sleppt.






Ég held að það sé ekki mikið af fiski genginn Selá. Þökk sé arnarsjón annars skólastjórans fannst samt á endanum fiskur og þökk sé færni hans í að sjónrenna agninu á fiskinn hlupu sex laxar á snærið. Á sunnudagsmorgninum var síðan komin úrhellisrigning og örugglega ekki óhætt að aka upp með ánni eins og við gerðum í blíðviðrinu á föstudag og laugardag. Sennilega var Selá orðin óveiðandi þegar við ókum í bæinn.



Comments


bottom of page