top of page

Selá í Steingrímsfirði 28. - 29. ágúst 2015

  • Þorkell Daníel Jónsson
  • Aug 30, 2015
  • 2 min read

Stundum er Selá óveiðandi.

 

Þessi sjóbleikja er merkilegur fiskur því hún er fyrsta bleikjan sem við veiðum í ánni.

Við félagarnir höfum í nokkur ár veitt um mánaðarmótin ágúst – september í Selá í Steingrímsfirði. Að þessu sinni áttum við föstudaginn 28. og laugardaginn 29. ágúst. Veðurspáin var okkur lítt hliðholl. Það leit út fyrir töluverða úrkomu. Áin er dragá og vatnasviðið stórt og við þessar aðstæður verður hún einfaldlega óveiðandi.


Veðurspáin gekk því miður eftir og þegar við komum að ánni á föstudagsmorgninum var hún gríðarmikil að vöxtum og gruggug. Það var sem sagt lítil ástæða til bjartsýni. Það var ekki einu sinni hægt að réttlæta daglanga veru við ánna með tali um að njóta útiveru og náttúrunnar. Þetta var ekkert nema vosbúð. Ekki aðeins að það rigndi á okkur allan daginn heldur var hvínandi norðaustan rok í dalnum og hitinn aðeins 3 – 4 gráður.


Það fór líka svo að engin fiskur náðist utan ein tveggja punda sjóbleikja sem hljóp á svartan Toby í Hermannshyl. Þessi bleikja fer samt í sögubækurnar því þetta er fyrsta bleikjan sem við veiðum í ánni. Að kalla Hermannshyl hyl er rangnefni því engan sé ég hylinn. Aðeins straumþunga breiðu. Áin sem kemur úr Þjóðbrókargili rennur í Selá rétt ofan við Hermannshyl. Vatnið í Þjóðbrókaránni var heldur tærara en vatnið í Selá og það var á skilunum sem bleikjan tók.

Á laugardeginum var veðrið öllu skaplegra þótt enn væri kalt. Svo kalt að um nóttina gránaði í fjöll. Áin var enn mikil en þó ekki eins svakaleg og daginn áður og liturinn á henni heldur fallegri. Við ákváðum að einbeita okkur að efri hlutanum.


Til að gera langa sögu stutta urðum við ekki varir við fisk utan að einn rétt rúmlega þriggja punda lax tók maðkinn hjá mér rétt ofan við Dimmubakka.


Allir hliðarlækir voru miklir að vöxtum.

Á laugardeginum sjatnaði hratt í ánni en allt kom fyrir ekki og veiðin einungis það sem ég náði að slíta upp.

Bình luận


bottom of page