Selvatn 21. júlí 2024
- Þorkell Daníel Jónsson
- Jul 22, 2024
- 2 min read
Eins og af öðrum heimi

Núna höfum við lítinn tíma til að leika okkur þannig að það fer minna fyrir veiði en oft áður. Við hjónin tókum nú samt veiðidótið með í Brautarlæk þessa helgina því að það er stutt stund milli stríða í byggingamálunum. Við dunduðum okkur aðeins á byggingasvæðinu og renndum á laugardagskvöldinu í Selvatn. Selvatn er handan hálsins sem er ofan við Hreðavatn. Þar hefur Gummi Daníels kunningi Guðrúnar frá fyrri tíð komið sér upp skógarkoti. Þangað renndum við þetta kvöld. Guðrún vonaði sá ég að Gummi væri í skógarkotinu en hún átti samt ekki von á því vegna þess að hann er orðinn aldraður maður. Það reyndist tilfellið og Guðrún gat því ekki heilsað upp á skógarmanninn og endurnýjað veiðileyfið sem hún fékk þegar hún var unglingur. Hún var nefnilega í vist á bænum Hreðavatni í fjögur sumur sem unglingur og þar kynntist hún Gumma og fékk æfilangt veiðileyfi í vötnin sem tilheyra bænum.
Það er nú ekki því að heilsa að það veiðileyfi hafi verið vel nýtt. Vissulega höfum við nokkrum sinnum farið og veitt í Hreðavatni en aðeins einu sinni áður í Selvatni. Núna langaði okkur að skoða hvort það væri vænlegra að veiða sunnanvert í vatninu. Við reyndum nefnilega í fyrra að fluguköst voru ekki auðveld norðanvert. Það var fallegt veður þegar við gengum frá skógarkotinu að vatninu. Okkur leið eins og við værum að ganga inn í einhvern ævintýraheim. Gróðurinn umlykur allt þarna innfrá og Skógræktin hefur plantað heilmiklu. Þau tré eru orðin vel að vexti. Gróðursæld sem þessari eigum við heiðarfólkið ekki að venjast.
Veiðin var svo sem ekkert til að hrópa húrra fyrir en það var samt fiskur. Eftir fjögurra klukkustunda veiðidund höfðum við landað fimm urriðum þannig að við eigum tvær máltíðir á grillið fyrir okkur tvö því smáir voru þeir.
Comments