top of page

Porto 2024

  • Þorkell Daníel Jónsson
  • Jul 9, 2024
  • 7 min read

Updated: Jul 25, 2024


Bláu flísarnar segja oft frá einhverjum atburðum í sögu Porto. Þessar flísar eru í dómkirkjunni. Flísarnar í Sao Bento lestarstöðinni eru einnig vel þess virði að skoða.

Í annað sinn dveljum við hjónin í borginn Porto í Portúgal. Síðast var það árshátíðarferð með vinnunni hennar árið 2018 en núna var það náms- og kynnisferð með Breiðagerðisskóla. Laugardagurinn var bara ferðadagur. Við vorum komin á Mercure Porto Santa Catarina hótelið þar sem við dvöldum undir kvöldmat. Hótelið reyndist hið ágætasta. Frábærlega vel staðsett í miðbænum, starfsfólkið vingjarnlegt og morgunmaturinn góður. Brauðið var sérlega gott. Það eina sem við hefðum viljað hafa betra var herbergið sem var óþægilega þröngt og sáralítið fráleggspláss. Þennan fyrsta dag skutumst við inn á veitingastaðinn við hliðina á hótelinu þar sem við fengum okkur þorsk fyrir svefninn.


Þegar út af hótelinu var komið blasti kirkja heilags Ildefonso við. Kirkjan stendur í grennd við Batalha torgið. Áður stóð kapella þar sem kirkjan stendur nú. Elstu heimildir um kapelluna eru frá árinu 1296. Kapellan var að hruni komin og rifin árið 1709 og hafist var handa við að byggja þessa fallegu kirkju til heiðurs biskupnum í Toledo. Kirkjan var síðan vígð árið 1739. Bláu flísarnar setja fallegan svip á kirkjuna en víða í Porto má sjá flísaskreytingar sem þessar á húsum.





Annars var sunnudagurinn bara nýttur til að ráfa stefnulaust um brekkurnar í nágrenni hótelsins. Porto er eiginlega ekki borg fyrir fótafúna því ýmist rúllar maður undan brekkunum eða beitir sig hörðu við að toga sig upp brekkurnar. Þetta var líkamsrækt í boði Porto og við erum ekki frá því að formið sé orðið betra eftir vikudvöl í borginni. Við röltum síðan að einu af helstu kennileitum Porto sem er Clergios kirkan með sínum 75 metra háum turni. Það er hægt að kaupa aðgang að kirkjunni og turninum og njóta þaðan stórkostlegs útsýnis. Við ákváðu-m að spara okkur það. Smíði kirkjunnar hófst árið 1732 og henni lauk endanlega með turninum árið 1763. Þessi kirkja er í barokkstíl hönnuð af Ítalanum Nicolau Nasoni. Næst rúlluðum við niður í Ribera hverfið við Do en þar á maður víst að sleppa því að kaupa drykki eða borða. Ástæðan er verðlagið og þarna eru sennilega ekki bestu veitingastaðirnir.


Við toguðum okkur síðan upp brekkurnar til baka í átt að hótelinu. Að okkur sótti þorsti. Blómstrandi Jacaranda tré heillaði okkur þannig að við settumst á veitingastað sem bauð upp á sýn að þessu fallega tréi. Þessi tré eru uppruninn í Suður-Ameríku en þeim hefur víða verið plantað enda falleg mjög.


Steinsnar við hótelið er Santa Catarina gatan sem er aðal verslunargatan í Porto. Þar gripum við eitt stykki ferðatösku á leiðinni heim því við áttum aðeins eina eftir að taskan mín fór í tætlur í Rómarferðinni um árið. Á leiðinni stoppuðum við á

pizzastað þar sem við fengum hina ágætustu pizzu.


Samkvæmt áætlun mánudagsins átti að vera námskeið úti við í bænum Aveiro sem er um 80 þúsund manna bær 75 km suður af Porto. Það tók okkur um klukkustund að komast þangað með lest. Það varð lítið um námskeiðshald því lestir byrjuðu seinna að ganga þennan daginn. Ástæðan er að dagurinn er þjóðhátíðardagur Portúgala almennur frídagur. Tíundi júní var valinn vegna þess að Luis de Camoes lést þennan dag árið 1580. Luis þessi er eins konar táknmynd þjóðernisvitundar Portúgala. Hann var skáld og samdi ljóðið Os Luisidas sem er ljóð þar sem afrekum Portúgala eru prísuð.


Sælgæti þeirra Aveirobúa reyndist ljómandi gott.

Við fengum því sem Aveiro hefur upp á að bjóða sem er nú kannski ekki neitt óskaplega mikið. Ætli það sé ekki ströndin sem er aðal aðdráttaraflið í bæ þessum. Við vorum ekki heppinn með matinn sem við keyptum í þessum bæ. Hann var bara alls ekki góður. Jú, sætabrauðið Ovos Molas smakkaðist vel. Eftir að við lukum námskeiðinu settumst við að ég held við ráðhústorgið. Eitt okkar skaust inn í bakarí þarna rétt hjá og kom til baka með bæjarbakkelsið sem kallast Ovos Moles sem myndi þýðast sem mjúk egg. Ovos Moles er gert úr eggjum, eggjarauðum, sykri og stundum súkkulaði. Sagan segir að Ovos Moles eigi uppruna sinn að rekja til nunna af Fransisku og Karmelítureglunum en þær nýttu hvítuna úr eggjum til að þrífa búninga sína og þurftu að finna not fyrir alla eggjarauðuna sem afgangs var. Ovos Moles bragðast hreint ágætlega.

Á svona bát sigldum við um síkin í Aveiro.

Bærinn hefur stundum verið kallaður Feneyjar Portúgals því hann er sundur skorinn af síkjum og eftir þessum síkjum sigldum við. Siglingin var þannig séð ágæt en það var svo sem ekki mikið að sjá. Lestarstöðin er fallega skreytt með bláum flísamyndum og miðbærinn var krúttlegur en ekki tókst Aveirobúum að heilla okkur með matnum sem þeir buðu upp á.


Ein sigling er ekki nóg svo við fórum í aðra á þriðjudeginum. Við keyptum okkur leiðsögn með báti um Douro ána. Douro áin er þriðja lengsta áin á Iberiaskaganum og er 895 kílómetra löng. Við sigldum einungis um neðasta hluta árinnar og fengum annað sjónarhorn á Dom Luis I brúna og Ribera hverfið. Við höfðum daginn allan frían utan að við höfðum ákveðið að taka þátt í vínsmökkunarferð um kvöldið. Hefðum kannski betur sleppt því vegna þess að ferðin sú var endurtekning á ferð sem við fórum 2018. Þess er helst að minnast úr þessari ferð er að það er ekki nóg að leiðsögumenn hafi góðan orðaforða á enskri tungu. Það er betra að það skiljist það sem þeir segja. Allur sá fróðleikur sem hraut af vörum leiðsögumannsins fór framhjá mér því ég skildi ekki orð af því sem hún sagði. Bátsferðin fyrr um daginn var heldur áhugaverðari og nú var leiðsögnin áheyrileg.


Á myndinni til hægri er Dom Luis I brúin og ofar í ánni sér í Infante Dom Henrique brúna. Brýrnar yfir Doure ána í Porto sex talsins.


Á myndinni til vinstri má sjá hluta af Ribera hverfinu. Það er byggt frá árbakkanum og upp hlíðina ofan við ánna. Orðið Ribera er dregið af portúgalska orðinu yfir á.


Á miðvikudeginum sinnti ég skyldum mínum og heimsótti skóla og bókasafn. Þær heimsóknir eru svo sem ekki í frásögur færandi en Guðrún nýtti tímann til að versla því verðlag er heldur lægra en í Reykjavík. Rua de Santa Catarina er helsta verslunargatan í Porto og þægilega nálægt hótelinu sem við dvöldum á. Rétt handan við hornið. Um kvöldið fengum við bestu máltíðina sem við fengum í þessari ferð. Það var við fjölfarið torg og alltaf voru stórsnjallir tónlistarmenn að spila við torgið. Við stoppuðum nokkrum sinnum við þetta torg á göngu okkar um borgina og settumst inn á þrjá af þeim veitingastöðum sem þarna eru. Annars urðum við ekki fyrir vonbrigðum með matinn sem við fengum í þessari ferð. Reyndar var hann misjafn en það er ekki við öðru að búast þegar maður hefur ekkert undirbúið sig og bara droppar inn þar sem maður er hverju sinni.


Okkur skilst að maður eigi ekki að borða í Ribera hverfinu því þar sé maturinn dýrastur en ekki endilega bestur. Við sannreyndum þetta því við átum eitt sinn hádegisverð við árbakkann og drukkum bjór með. Þetta var dýrast bjórglas ferðarinnar og sennilega voru það mistök að velja þennan stað til að smakka vinsælustu portúgölsku samlokuna. Francesinha heitir samlokan sú sem myndi útleggjast sem lítil frönsk stúlka á okkar ylhýra. Samlokan er sett saman úr hvítu brauði, skinku, steik, eggi, osti og miklu sósusulli. Við mælum ekkert með þessari samloku nema til að geta sagst hafa smakkað hana.



Á myndinni til hægri sjáum við ,,hina ljúffengur" Francesinha samloku. Á myndinni til vinstri snæði ég bestu steikina sem við fengum í Porto. Vorum oftast ágætlega ánægð með matinn sem við fengum en fannst samt vanta sósur.


Við ákváðum að fara í Krystalshallargarðinn á fimmtudeginum. Enga fundum við Krystalshöllina en hún var víst þarna fyrir 1951. Hún hafði verið byggð fyrir einhverja heimssýningu árið 1865 en var rifin 1951. Krystalshöllin var byggð í anda samnefndrar hallar í London. Ástæða þess að höllin var rifin var að henni var ekki haldið við og komin í niðurníðslu. Í stað hennar var grænn kúpull byggður í staðinn, stundum kallaður græna geimskipið. Hlutverk græna kúpulsins er að vera viðburðahöll. Við fengum leiðsögn um höllina en okkar tilgangur var aðallega að sjá útsýnið yfir Porto ofan af byggingunni. Það var frábært og vel þess virði að sjá.



Útsýnið ofan af Græna Geimskipinu er frábært. Á myndinni efst til hægri sjáum við Arrábia brúna. Neðri myndin er úr garðinum sem notalegt er að rölta um í félagsskap páfugla og hænsna.


Við gerðum okkur ferð í Arrábia verslunarmiðstöðina á föstudaginn. Þessi verslunarmiðstöð er í Gaia og af einhverjum ástæðum er hún ekki nefnd þegar maður leitar í visku veraldarvefsins og spyr um verslunarmiðstöðvar í Porto. Hún er samt með þeim betri því því þar er enginn skortur á búðum því þær eru yfir 180 talsins né á sætum fyrir verslunarþreytta eiginmenn.


Í baksýn glittir í gömlu konuna með poka fullan af matarleyfum að gefa köttunum.

Laugardagurinn var síðan heimferðardagurinn. Við byrjuðum á því að setjast niður við eitthvert minnismerki á einni hæðinni til að snæða nestið sem var bara afgangurinn úr því sem var matarkyns í hótelherberginu þegar við losuðum það. Þar sem við sitjum þar kemur gömul kona sem átti afskaplega erfitt með gang og dregur einhverjar matarleyfar upp úr poka. Þá birtast tveir villikettir sem greinilega þekktu konuna. Skömmu síðar mættu máfarnir en þeir eru ansi ágengir. Gamla konan var ekki ánægð með þá en hún tryggði með skrækjum og stafasveiflum að kettirnir fengju sitt.

Dæmigerð götumynd frá Porto. Snarbrattar tröppur og við gengum þær margar í þessari ferð.

Við áttum ekki flug fyrr en seinni partinn gátum við gefið okkur tíma til að skoða dómkirkjuna. Smíði hennar hófst um miðja þrettándu öld og smátt og smátt hefur hún stækkað í gegnum aldirnar. Annars höfum við skoðað svo margar kirkjur á ferðum okkar að það var ekkert sérstakt við dómkirkjuna í Porto sem greip okkur. Nema þá bláu flísarnar sem víða má finna í Portúgal. Þessar flísar kallast azulejo og má rekja þær til fimmtándu aldar og áhrifa frá aröbum. Þessar bláu flísar skreyta mörg hús í Porto. Í skólanum gagnfræðaskólanum sem ég heimsótti sá ég að verið var að reka áróður gegn vandalisma. Á vegg í anddyrinu sá ég að eitt af því sem er til vandræða er þjófnaður á flísum. Þjófarnir höggva flísar af húsum og síðan ganga þær kaupum og sölum. Annað sem einkennir Porto eru brekkurnar. Borgin er svo sannarlega ekki fyrir fótafúna.  



Recent Posts

See All

Comments


bottom of page