Meðalfellsvatn 25. apríl 2014
- Þorkell Daníel Jónsson
- Apr 26, 2014
- 1 min read
Snemma vors á nýjum bíl.

Sumarið 2014 heilsar okkur með einstaklega fallegu veðri. Það varð auðvitað til þess að mér varð hugsað til veiðibúnaðarins sem hefur beðið sumarsins á loftinu fyrir ofan bílskúrinn. Föstu-dagsmorguninn var einnig yndislega fagur þannig að ég sótti veiðibúnaðinn. Henti honum í skottið á bílnum og ætlaði að koma við í Meðal-fellsvatni á leið heim úr vinnunni.
Það er orðið ansi langt síðan ég sótti Meðalfells-vatn heim. Stuttu eftir að eiginkonan smitaði mig af veiðbakteríunni fór ég í tvisvar eða þrisvar í vatnið en síðan þá hef ég ekki reynt að veiða í því. Mér skilst að Meðalfellsvatn sé eitt af fyrstu vötnunum til að vakna á vorin enda stendur það ekki hátt yfir sávarmáli. Það er því ekki vitlaust fyrir veiðiþyrsta menn að byrja vorið í vatninu.
Veðrið var kjörið til að rifja upp fluguköstin, logn og örlítil gjóla öðru hvoru. Það fer engum sögum af árangrinum. Sá smáfisk vaka einstaka sinnum en enginn þeirra hafði áhuga á því sem ég hafði að bjóða. Ég gat ekki heldur séð að þeir veiðimenn sem í kringum mig voru hafi verið að fá einhvern fisk heldur. Ég fór reyndar ekki víða í leit að fiski. Hélt mig allan tíman neðan við bæinn Meðalfell og kastaði á svæðið í kringum Hljóðasteina. Næst ætla ég að prófa við Grástein, Skóg og í Flekku-Dalsvík.
Þrátt fyrir að veiðin hafi engin verið var ferðin hin ánægjulegasta. Tilfinningin fyrir sumrinu var sterk. Fuglasöngurinn ómaði allt um kring og baulið í kúnum á Meðalfelli bergmálaði í dalnum.
Comments