top of page

Madrid 2022

  • Þorkell Daníel Jónsson
  • Dec 27, 2022
  • 9 min read

Updated: May 7, 2023

4. - 11. nóvember

 

Skömmu eftir að við hjónin pöntuðum okkur haustferð til Berlínar fékk ég tilboð um að sæka málstofu í Madrid. Tilboðið var eiginlega of gott til að hægt væri að hafna því svo ég sló til og eiginkonan slóst með í för. Málstofan var málstofa hóps skólastjóra sem hefur verið að taka á móti kennara- og stjórnendahópum á vegum English Matters. English Matters er deild við Háskólann í Madrid og stendur fyrir ýmsum námsskeiðum og ferðum fyrir kennara. Ferðin var styrkt af Erasmus verkefninu þannig að við þurftum ekki að greiða fyrir gistinguna og ég fékk styrk fyrir fluginu hjá Kennarasambandinu þannig að kostnaður við vikuferð til Madridar var einungis flugið fyrir konuna.

 

Madrid

Madrid er næst stærsta borg Evrópu. Íbúar eru 6,7 milljónir með úthverfum en í megin borgarkjarnanum búa 3,4 milljónir. Borgin er staðsett á miðjum Íberíuskaganum uppi á hásléttunni í 650 metra hæð. Þess vegna einkennist veðurfarið af heitum sumrum og köldum vetrum. Köldum vetrum? Varla því við vorum þarna í næst kaldasta tíma ársins og veðrið var allan tíman eins og á góðu sumri í Reykjavík. Madrid hefur verið höfuðborg Spánar frá 1561. Hún er heillandi borg vegna þess að vel hefur tekist að halda í gömlu byggingarnar.


Puerto de Toledo

Fyrsti staðurinn sem fær sérstaka umfjöllun hér er nú ekki einn af þeim stöðum í Madrid sem gefa tilefni til að maður geri sér sérstaka ferð til að skoða. En þess þurftum við ekki því við gistum á samnefndu hóteli sem var við hliðina á Toledo hliðinu. Rétt við hótelið er síðan neðanjarðarlestarstöð með sama nafni. Josef Bonaparte lét hefja byggingu hliðsins árið 1812 en ári síðar yfirgáfu Frakkar Madrid. Byggingu hliðsins var samt haldið áfram og var hliðið tilbúið til notkunar árið 1827. Þetta nítján metra háa hlið þjónaði á þeim tíma þeim tilgangi að vera inngangshlið þeirra sem áttu erindi í borgina og komu frá Andalúsíu. Í dag er hliðið ekkert annað en skraut á hringtorgi.


Plaza Mayor

Plaza Mayor er aðaltorgið Í Madrid. Það var opnað árið 1620 að tilstuðlan Philips III hvers stytta stendur á miðju torginu. Torgið er fullkomlega ferkanntað og frekar lokað. Mjóir útgangar eru til allra átta og fjöldi veitingastaða er á torginu. Það er í raun ekki mikið að skoða á torginu. Helstu byggingar er Casa de la Pandería með freskurnar á framhliðinni og Casa de la Carnicería. Torgið hefur í langri sögu sinni verið vettvangur ýmissa atburða, þar á meðal nautaats og jafnvel aftaka.


Plaza de Sol er annað torg sem vert er að skoða í Madrid. Þetta torg er víst miðja Spánar og því sagt að allar leiðir innan Spánar liggi til þessa torgs. Það er ekki langt á milli þessara megin torga Madridar.Okkur skilst að Plaza de Sol sé fallegt torg og að þar sé hin fræga stytta af tákni Madridarborgar, jarðaberjatré og björninn. Við verðum að gera okkur aftur ferð til Madridar til að skoða þetta torg því það var lokað vegna endurbóta.


Gran Via

Þar sem við vorum á ferð í Madrid og ekki svo langt í jólin nýttum við ferðina til að versla jólagjafirnar. Verðlag er mun betra á Spáni en Íslandi þannig að það var engin spurning. Aðalverslunargatan er Gran Via og hana krúsuðum við upp og niður. Gran Via er þekktasta gata Madridar. Fyrstu hugmyndir um hönnun hennar voru teiknaðar 1869 þegar miðborg Madridar var endurhönnuð. Það tók Madridarbúa tíma að ljúka hönnuninni því hönnunarvinnunni lauk ekki fyrr enn 1899 og verkinu lauk síðan ekki alveg fyrr en 1929. Ekki undarlegt því verkið var af stærri gerðinni. Til að leggja götuna þurfti að rífa einn 300 hús og 50 götur. Gran Via er ansi mögnuð því hana skreyta mörg ákaflega falleg hús. Í götunni eru fjöldi leik- og bíóhúsa enda hefur hún fengið viðurnefnið Brodway Spánar. Reyndar hefur leik- og bíóhúsum fækkað aðeins undanfarin ár.


Cibeles torgið

Eftir að hafa gengið Gran Via til enda og smá spöl eftir Calle de Alcalá komum við inn á Cibeles torgið. Magnað torg þar sem Cibeles brunnurinn og samskiptahöllin eru mest áberandi. Samskiptahöllinn eða Palacio de Cibeles var byggð árið 1919 sem pósthús en þjónar í dag sem ráðhús Madridarborgar. Við torgið eru fleiri merkar byggingar eins og Palacio de Buenovista, Banco de Espania og Palacio de Linares.


Konungshöllin og dómkirkjan

Ef það er konungshöll í borg er auðvitað skylda ferðamannsins að skoða hana. Við röltum því inn á Plaza de la Armería þar sem konungshöllin er á aðra hönd og Almudea dómkirkjan á hina. Konungshöllin sem er ein af stærstu höllum Evrópu var byggð á árunum 1738 – 1755 í barokkstíl. Þegar Márarnir tóku öll völd á Spáni byggðu þeir alcázar eða kastala á hæðinni þar sem höllin stendur nú enda gaf staðurinn víðsýni til allra átta. Það var Emir Mohamed I sem stóð fyrir þeirri byggingu en hún reis á tímabilinu á milli 860 – 890. Kastalinn stækkaði eftir því sem aldirnar liðu en stærstu viðbæturnar voru gerðar á seinni hluta 16. aldar. Lengi vel hélt byggingin kastalanafninu (Alcázar) þrátt fyrir að vera orðin konungshöll. Það er í raun lítið vitað um þessa byggingu því varla nokkrar teikningar hafa fundist af henni utan ein frá 16. öld.


Það kveiknaði í gömlu höllinni 24. desember 1734 og fjórum árum síðar að skipan Filips V hófst bygging nýju hallarinnar. Sú höll er engin smásmíði. Hún er ein sú stærsta í Vestur Evrópu. Herbergin eru 3.418 í 135 þúsund fermetrum. Almenningur getur fengið að fara skoðunarferð innan hús. Við ákváðum að gera það ekki. Eiginkonan sagði að hún hefði séð nóg af höllum.

Beint á móti innganginum í höllina er dómkirkjan, Cathedral Almudena. Glæsilegt hús og með fallegri kirkjum sem við höfum séð. Maður myndi ætla að í borg eins og Madrid ætti dómkirkjan sér langa sögu en svo er nú ekki. Bygging hennar hófst árið 1878 en hún var ekki vígð til notkunar fyrr en 1993. Vissulega eru margar gamlar kirkjur í Madrid en dómkirkjan er ekki ein af þeim.


El Retiro garðurinn

Retiro garðurinn er aðal útivistargarðurinn í Madrid. Í garðinum er yfirleitt líf og fjör og ýmislegt skemmtilegt í gangi. Ýmsir listamenn leika listir sínar hér og þar í garðinum. Þar er tilbúið vatn sem hægt er að fara í bátsferð á, minnismerki um Alfonso XII, kristalshúsið, rósagarður, listasýningar og fleira. Við fengum okkur að sjálfsögðu rölt um garðinn. Sennilega var ekki mikið í gangi því í nóvember er haustmánuður. Við vorum nú samt að skoða blómstrandi rósir í Retiro garðinum og hitin þessa daga í nóvember var eins og á góðu sumri á Íslandi.Þrátt fyrir að það væri ekki mikið í gangi þá gengum við fram á fornbílasýningu og eitthvað fjör var í gangi fyrir börnin.


Prada safnið

Eitt kvöldið vörðum við tveimur klukkustundum á Prada safninu. Á þeim tíma skoðuðum við auðvitað aðeins brotabrot af safnkostinum. Safnið á nefnilega 7,600 málverk, 4,800 teikningar og 1500 höggmyndir. Vissulega er ekki allur safnkosturinn til sýnis í einu en nógu margt er til sýnis samt. Maður hefur engan vegin athyglisþan í lengri skoðun en tvo til þrjá tíma. Eduardo gamli, sá sem bauð mér til Spánar, reyndist vera mikill áhugamaður um myndlist og sögu þannig að við fengum hreint frábæra leiðsögn um safnið og þá sérstaklega verk Velasques, Goya og Greco. Þar sem ljósmyndatæknin var ekki kominn til sögunnar þegar þessir herramenn voru og hétu voru þeir eiginlega fréttaljósmyndarar þess tíma þannig að maður fékk ekki aðeins leiðsögn um listina heldur einnig um söguna.


Skólaheimsókn og Toledo

Það sem ferðin var á vegum vinnunnar fór hluti af tímanum í setu á málstofu með stjórnendum skóla sem taka á móti hópum á vegum English Matters. Við fórum einnig í heimsókn í skóla með um það bil 700 nemendum. Skólinn heitir Eurovillas Internactional School og leggja þau mikla áherslu á enskukennslu. Miðað við það sem Eduardo sagði okkur er það opinber stefna á Spáni að leggja mikla áherslu á enskukennslu. Maður fann lítið fyrir stærðinni því skólinn var í mörgum litlum byggingum en ekki einni stórri eins og maður er vanur. Stofur og húsbúnaður var mun fátæklegri en við eigum að venjast á Íslandi.


Seinni hluta dagsins var komið við í borginni Toledo sem á sér langa og merkilega sögu. Sennilega hefur henni upphaflega verið valin staður í þessu grófa landslagi vegna þess hversu vel frá náttúrunnar hendi borgin er varin árásum. Áin Tagus ver hana frá þremur hliðum og síðan stendur hún mjög hátt, rúmir 1100 metrar þannig að það hefur ekki reynst árásarherjum auðvelt að nálgast borgina óséðir. Borgarinnar er getið í Rómverskum heimildum sem lítil borg varin af staðsetningu (urbs parva, sed loco munita). Borgin var sigruð af rómverska hershöfðingjanum Fulvius Nobilior árið 193 fyrir krist og varð höfuðstaður Carpentia. Visgotar settu dómstól sínum stað í borginn á sjöttu öld og hún varð einnig mikilvæg á Máratímabilinu 712 – 1085 þegar Alfonso VI sigraði borgina. Áhugaverður hluti sögu þessarar borgar var hvernig múslímum, kristnum mönnum og gyðingum tókst að búa saman í sátt og samlyndi svo öldum skipti. Af því má sennilega eitthvað læra. Það dró mjög úr mikilvægi borgarinnar þegar Filip II gerði Madrid að höfuðborg Spánar 1560.



Við fengum leiðsögn um miðborgina þar sem bráðskemmtilegur leiðsögumaður hellti yfir okkur fróðleik í því magni að fæst man maður. Við munum þó að hún sagði okkur frá veðurhremmingum síðasta árs. Spánverjar eru vanir frekar mildum vetrum en þarna uppi í fjöllunum kom óvenju öflugt kuldakast með upp í 25 gráðu frosti sem sprengdi fyrir þeim vatnsleiðslurnar. Síðan kom sumarið og hitarnir voru ævintýralegir. Spánverjar eru vanir að fá yfir fjörutíu gráðu hita á hverju sumri en leiðsögumaðurinn lýsti síðasta vetri sem hreinu helvíti. Hitinn reis yfir daginn vel yfir 40 gráðurnar en það sem var óvenjulegt var að hann lækkaði ekki niður fyrir 27 gráðurnar á næturnar. Þar af leiðandi fengu íbúarnir ekki neinn svala í hús sín að morgni.


Eitt af því sem við munum af frásögn leiðsögumannsins var frásögn af frægu málverki meistarans El Greco sem hann málaði í kapellu eina við dómkirkjuna. Málverkið heitir Útför hertogans af Orgaz. Sá ágæti maður stýrði borginni og lést á fyrsta eða öðrum áratug 14. aldar. Hann var greinilega mikils metinn því sagan segir að tveir dýrlingar hafi stigið niður af himnum til að koma karlinum til grafar. Málverkið er tvískiptþar sem efri helmingurinn sýnir það sem er í gangi á himnum en sá neðri sýnir það sem á sér stað á jörðu niðri. Að sjálfsögðu má finna Greco sjálfan í málverkinu líkt og hann hafi verið þarna staddur þegar atburðurinn átti sér stað. Það getur nú varla staðist því málverkið var málað árið 1586. Á göngu okkar um miðborgina sáum við hverja verslunina af annari sem seldi sverð, hnífa og ýmsar járnvörur. Toledo er einmitt þekkt fyrir gott stál og framleiðslu á hnífum og sverðum.


Ávila


Stjórnendur English Matters vildu greinilega gera vel við okkur sem höfum verið að taka á móti hópum frá þeim. Einn daginn skipulögðu Eduardo og Eduardo, já þeir eru tveir, dagsferð sem einungis var skoðunar og kynnisferð um menningu Spánar. Við byrjuðum á því að heimsækja bæinn Ávila sem er eins og Toledo og Madrid á hásléttu Spánar. Bærinn er á heimsminjaskrá Unesco. Gamli bærinn er umluktur vel varðveittum virkisvegg. Bygging virkisveggsins hófst á 12. öld. Stærsti hlutinn var byggður á 13. öld en það tók heil 600 ár að byggja allan vegginn. Virkisveggurinn er 2,500 metra langur, 12 metra hár, með 88 turnum og 9 hliðum. Hreint magnað mannvirki og ótrúlega vel varðveitt.


Segovia

Eftir heimsóknina til Ávila var farið í borgina Segovia. Segovia er um það bil 60 þúsund manna borg og þekktust fyrir vel varðveitt forn mannvirki. Í gegnum miðbæinn liggur magnað áveitukerfi frá tímum Rómverja. Talið er að það hafi verið byggt undir lok fyrstu aldar eftir krist. Áveitukerfið er hlaðið úr steinum og ekkert steinlím festir þá saman. Það jafnar út mishæðirnar í landslaginu og flytur vatn frá Rio Frio ánni sem er 17 kílómetra frá borginni. Áveitukerfið var í notkun allt til ársins 1973. Algerlega stórkostlegt mannvirki og með ólíkindum vel varðveitt. Við þetta mannvirki fengum við mjög svo síðbúinn hádegisverð. Ekki veitti af því hópurinn var orðinn glorsoltinn.


Eftir hádegismatinn tókum við leigubíla frá matsölustaðnum upp að Alcazár de Segovia sem er kastali sem byggður var á síðmiðöldum. Þessi kastali er mjög sérstæður í útliti því arkitektúrinn er blanda af evrópskum (gotneskum) og múslímskum (mudejar) áhrifum. Manni finnst kastalinn vera eins og klipptur út úr einhverju ævintýrinu. Hugsanlega vegna þess að hann er að öllum líkindum fyrirmyndin að kastala Mjallhvítar hjá Disney. Kastalinn er byggður á klettasyllu og vitað er að Rómverjar byggðu upp einhvers konar hernaðaraðstöðu á klettinum. Márarnir byggðu virki ofan á rómversku rústunum. Fyrstu heimildir af kastala á klettinum eru frá 12. öld eða skömmu eftir að kristnir menn náðu yfirráðum á svæðinu. Kastalinn á sér heilmikla sögu sem lesa má hér. Til að gera langa sögu stutta þá hefur kastalinn þjónað sem virki, konungshöll 22. konunga, konunglegur herskóli og ríkisfangelsi.

Við skoðuðum dómkirkjuna ekki en hún er örugglega verð þess að skoða. Í það minsta virkaði hún mikilfengleg frá kastalanum séð. Kirkjan var byggð á árunum 1525 – 1577 og síðan var hvelfingunni bætt við hana árið 1630.


Las Ventas og ýmislegt annað

Til viðbótar fyrrgreindum stöðum þvældumst við um Madrid því í þessari ágætu borg er auðvitað æði margt að skoða. Gáfum okkur tíma til að versla jólagjafirnar á Gran Via. Þar er til dæmis næst stærsta Primark verslun í heimi. Merkileg staðreynd eða þannig. Einn daginn skoðuðum við Las Ventas sem er þriðji stærsti nautaatshringur í heimi og sá stærsti á Spáni. Satt best að segja þótti okkur lítið til hans koma. Sennilega spilar neikvætt viðhorf okkar til nautaats inn í upplifunina. Upplifun okkar hjónanna af Madrid var hins vegar ekkert nema jákvæð. Samgöngurnar prýðisgóðar og margt að sjá. Ef við fengjum löngun til að skjótast í borgarhopp á næstunni kæmi Madrid mjög til greina. Vikutími í borginni væri hæfilegur tími og myndum við allan daginn mæla með að ferðamaðurinn keypti sér ferðir út fyrir borgina til Toledo, Segovia og Ávila.






Recent Posts

See All

Commenti


bottom of page