top of page

Last Christmas

  • Þorkell Daníel Jónsson
  • Dec 23, 2017
  • 2 min read

Updated: Jun 18, 2022

Lag og texti: George Michael

 


Seint mun ég viðurkenna að hið ágæta tvíeiki Wham hafi verið í einhverju uppáhaldi hjá mér. Verð þó að viðurkenna að lagið Last Christmas hefur verið órjúfanlegur hluti af aðdraganda jólanna síðan við hjónin hófum búskap. Það var gefið út árið 1984. Það er samt svo að það er varla rétt að flokka lagið sem jólalag því texti þess fjallar minnst um jólin. Last Christmas varð gríðarlega vinsælt en náði samt ekki fyrsta sæti vinsældarlista. Lagið Do they know it´s Christmas kom í veg fyrir það. Vinsældir lagsins eru slíkar að ekkert lag sem ekki fór í fyrsta sæti vinsældarlista hefur selst betur.


Dóttir okkar fór að spila lagið fyrir jólin 2015 á píanóið þannig að mér fannst kjörið að ég finndi einfalda útsetningu og reyndi að spila lagið með henni. Ég fann eina í C dúr á goliathguitartutorials.com og til að spila það með píanóinu hækka ég tóntegundina með klemmu upp í D dúr með því að setja klemmuna á annað band. Hér má heyra okkur reyna að spila lagið saman.



Hér fyrir neðan spila ég síðan útsetninguna sem undirleik undir myndband sem á að vera yfirlit yfir það sem fjölskyldan hefur verið að brasa á árinu 2017. Lagið spila ég með klemmu á öðru bandi og er þá í sömu tóntegund og upprunalega útgáfan. Spilamennskan er langt frá því að vera hnökralaus. Ég náði nefnilega ekki að æfa lagið til fullnustu en vildi endilega koma því á vefinn áður en árið væri úti. Hljóðupptakan er eins og spilamennskan. Ekki nógu góð því bassinn er full ágengur. Aftur bið ég um fyrirgefningu og vísa í lærdómsferlið. Síðan rak ég augun í að í lokin á myndbandinu skrifa ég orðið svona með tveimur vöffum. Ég voga mér ekki að biðjast fyrirgefningar í því vegna þess að villan sú verður ekki fyrirgefin. Það að hún sé ekki leiðrétt skrifast á leti. Ég einfaldlega nenni ekki að laga hana.



Ég hef stundum velt fyrir mér hvort það sé snúið að útsetja lög fyrir plokkaðan gítar. Hef lengi ætlað að láta reyna á hvort ég hafi það sem til þarf. Ég hef samt aldrei komið mér að því þangað til núna í desember þegar ég settist niður og útsetti lagið Last Christmas. Ég átti reyndar hluta af laginu útsett frá því að ég og dóttir mín spiluðum það saman árið 2015. Ákvað þá að setjast niður og útsetja restina af laginu. Með þrjóskuna að vopni tókst mér að ljúka við þá útsetningu sem hér má heyra. Þar sem þetta er fyrsta og eina lagið sem ég hef nokkru sinni útsett er viðbúið að einhverjar villur hafi slæðst inn. Það hlýtur að fyrirgefast því villur eru mikilvægur hluti af lærdómsferlinu. Ef einhver vill síðan nýta þessa útsetningu þá er það velkomið.






Comentários


bottom of page