top of page

Langavatn 20. júlí 2014

  • Þorkell Daníel Jónsson
  • Jul 20, 2014
  • 2 min read

Svitaganga og hugsað til baka.


Eftir fjögurra daga vinnu við múrbrot vestur í Dölum var kærkomið að halda hvíldardaginn heilagan í Brautarlæk og hvíla lúin bein. Sunnudagurinn rann upp, bjartur og fagur. Það þóttu tíðindi því júlímánuður hafði til þessa verið blautari en í góðu hófi gegnir. Nú var um að gera að njóta þurrviðrisins áður en næsta rigningarlota hæfist. Um miðjan dag fór eirðarleysi að gera vart við sig þannig að ég lagði til við aðra fjölskyldumeðlimi að við færum í veiðiferð í Langavatn. Því var ekki svarað með húrrahrópum svo ég ók einn niður Norðurárdal.


Ég hafði hugsað mér að veiða suðurbakkann frá Langá í vestri til Beilár í austri. Fyrst þurfti að ganga inn að Langá. Sú ganga reyndist rúmlega klukkustundar löng með ljósmyndastoppi. Gangan er til þess að gera auðveld en að þessu sinni reyndi mjög á hitakerfi líkamans. Svitinn rann af göngumanni í stríðum straumum enda lofthiti hár og engin vindkæling. Hér voru kjöraðstæður fyrir mýið sem veitti eina spendýrinu við vatnið óþægilega mikla athygli. Að lýsa mýinu þannig að bláir strókar hafi sem mökkur fyrir sólu borið væru umtalsverðar ýkjur. Atgangur mýsins var samt það rammur að ég dásamaði fyrirhyggju mína að hafa munað eftir flugnanetinu. Að sama skapi formæli ég nú skorti á fyrirhyggju þar sem ég horfi á stokkbólgnar hendur mínar. Ég skildi hanskana eftir í bílnum! Hver man eftir hönskum þegar lofthiti er yfir átján gráðum?


Séð yfir Langavatn til norðurs. Áin sem fellur hægra megin í vatnið er Beilá. Þar fyrir ofan glittir í Vikrafellið.

Gegnblautur af svita sest ég niður við Langá og hugsa til fyrri ferða fjölskyldunnar inn að Langavatni. Þessar ferðir voru flestar skoðunarferðir en veiðistöngin var auðvitað alltaf með í för. Ekki hafa þessar ferðir verið minnisstæðar fyrir veiðina því hún hefur verið sáralítil. Miklu fremur fyrir náttúrufegurðina sem er ómæld þarna við vatnið. Í huganum dreg ég upp minningarbrot frá fyrstu ferðinni einn sólfagran dag í ágúst 1997. Í för voru aldraður tengdafaðir minn, eldri dóttir mín þá þriggja ára og eiginkonan. Okkur tókst að festa bílinn okkar, Nissan Pulsar, í fjöruborðinu en sem betur fer tókst okkur með tilfæringum að losa hann. Við höfðum alltaf meiri trú á þessum bíl en innistæða var fyrir. Að þessum æfingum loknum drógum við fram hressingu sem við nutum saman þarna í ágústsólinni. Eiginkonan tiplaði með veiðistöngina niður að vatni og setur fljótlega í myndarlega bleikju. Missti hana reyndar þegar hún ætlaði að skófla henni á land en þarna sáum við að vatnið geymir ágætis fiska.

Þegar við ókum upp að Langavatni árið 1997 festum við bílinn þarna í vatnsborðinu. Erum búin að losa hann þegar myndin er tekin. Hægra megin við bílinn er Halli að sinna Hörpu Valdísi. Við urðum víst að sætta okkur við að Pulsarinn okkar var ekki jeppi.


Víðast við suðurbakka Langavatns er aðdjúpt. Á nokkrum stöðum seytla lækjarsprænur út í vatnið og þar er auðvitað vænlegt að veiða. Ýmist ná klettar alveg fram í vatnsborðið en sumstaðar er malarbakki sem þægilegt er að veiða af. Ég prófaði að kasta flugu alls staðar þar sem lækir seytluðu út í vatnið en árangurinn var þegar upp var staðið einungis tvær bleikjur af smærri gerðinni. Önnur þeirra tók Krókinn en hin tók púpu sem ég kann ekki að nefna. Hún var með rauðum búk sem var vafinn með silfurvír og brúnum kraga við kúluhausinn. Á næsta ári hef ég hug á að ganga austurbakkann frá Langavatnsá í norðri að Beilá í suðri.





Comments


bottom of page