top of page

Langavatn 10. júní 2017

  • Þorkell Daníel Jónsson
  • Jun 11, 2017
  • 2 min read

Að þekkja sín takmörk

 

Veiðitímabilið hjá fjölskyldunni hófst seint í ár því við bleyttum ekki í færi fyrr en þann tíunda júní. Þá vorum við stödd í sumarkofanum okkar í Brautarlæk efst í Norðurárdalnum. Okkur hefur alltaf langað að ganga austurbakka Langavatns frá leitarkofanum Torfhvalabúð inn að Langavatnsá sem rennur í vatnið að norðanverðu. Á laugardeginum var kjörið að rölta þetta því veðrið var ágætt. Til þess að gera bjart og vindur stóð að norðaustan.


Eftir þrjátíu kílómetra akstur niður Norðurárdalinn og fimmtán kílómetra akstur upp að vatninu lögðum við bílnum á tanganum þar sem Guðrún setti í bleikju í minnisstæðri ferð í vatnið fyrir rúmlega 22 árum. Þarna hlóðum við á okkur nauðsynlegum búnaði og maður, kona, unglingur og hundur gengu af stað. Þar sem við þekktum okkar takmörk fórum við einungis fetið og gangan inn eftir tók okkur heila klukkustund. Gangan eftir austurbakkanum er einstaklega þægileg því hvergi er um brattan veg að fara og slóði liggur alla leið inn í botn. Síðast nefndu ferðafélaganna þekkti engan vegin sín takmörk og rauk út og suður þrátt fyrir ráðleggingar ferðafélaganna um annað. Hann átti eftir að taka afleiðingum af því.


Á hæsta punktinum stendur varða og frá henni er falleg sýn bæði til norðurs og suðurs eftir vatninu. Norðan megin rennur Langavatnsá niður Langavatnsdal og fellur í vatnið og myndar töluvert meiri ós en við áttum von á. Vestanvert ofan við vatnið er Langavatnsmúli og austanvert er Réttarmúlinn. Okkur þótti veiðilegt í ósnum og byrjuðum veiðina þar. Veiddum síðan hér og þar út af austurbakkanum þar til við komum aftur að bílnum. Við töldum okkur verða vör við fisk við ósinn og nyrst í vatninu en ekki náðum við einum einasta titt á land.


Horf til norðurs inn að Langavatnsá.

Horft til suðurs.

Þegar heim var komið bar hundurinn sig aumlega enda óvanur svona slarki. Greyið var svo fótsár eftir gönguna að hann bar sig um eins gigtveikt gamalmenni. Nú þegar þetta er skrifað að morgni sunnudags hreyfir hann sig ekki úr bæli. Það sama á reyndar við um unglinginn en það er af öðrum ástæðum. Fyrir hana var gangan inn með Langavatni leikur einn.







留言


bottom of page