top of page

Kvíslaveitur 21. ágúst 2014

  • Þorkell Daníel Jónsson
  • Aug 25, 2014
  • 2 min read

Ætli það fari að gjósa í austri?

 

Á hálendinu suðaustan við Hofsjökul er Kvíslavatn eða Kvíslaveitur. Kvíslavatn er rúmlega 20 ferkílómetra lón sem myndaðist á árunum 1980 – 84 þegar nokkrar kvíslár Þjórsár voru stíflaðar. Á fyrstu árunum eftir að lónin mynduðust var miklum fjölda urriðaseiða sleppt í þau. Ef engar sleppingar hafa verið hin síðari ár má leiða að því líkum að náttúruleg hryggning viðhaldi stofninum.


Eftir að hafa ekið eina 60 km frá Hrauneyjum eftir Sprengisandsleið var sveigt af þeim volaða vegi og veiðislóði fetaður eina fimm kílómetra að veiðisvæðinu sem er niður undan Svörtubotnum. Veðrið var dásamlegt, logn, kalt og stjörnubjart. Um nóttina féll hitinn niður undir frostmark. Um morguninn var veðrið eins, heiður himinn og vindur stilltur.


Við veiddum í rólegheitum frá morgni til sólarlags. Um miðjan dag berast þær fréttir að gos sé hafið í Dyngjujökli sem var eina 70 km. norðaustan við okkur. Samkvæmt fréttum var von á flóði undan jöklinum og átti það að falla í Hágöngulón skammt austan við okkur. Það skal nú viðurkennast að eftir fréttirnar gjóaði maður augunum í átt að meintu gosi. Aldrei sáum við nein merki um gos enda reyndist ekkert gos í gangi. Aðeins af áframhaldandi jarðhræringar sem voru það fjarri að við fundum ekki fyrir þeim.


Undir kvöld var komin suðvestan strekkingur. Yfir daginn höfðum við slitið upp einn og einn fisk en þegar sólin var að setjast hlupu tólf urriðar á snærið á stuttum tíma. Þeir sem voru á báti og gátu veitt í miðju vatninu veiddu mun betur en við og fiskurinn þar var heldur stærri en sá sem veiddur var frá landi. Þegar degi hallaði höfðum við landað 21 fiski. Allir voru þeir 1 – 1,5 pund. Allir voru þeir flakaðir þegar heim var komið og bíða núna reykingar.


Öðru hvoru litum við til norðausturs því hugsanlega sæjum við gosmökk. Ef vatnsflóð undan jöklinum vegna gossins kæmi þessa leið niður átti það að fara í Hágöngulón sem er við fjallið Syðri Hágöngu til hægri á myndinni. Nyrðri Háganga er vinstra megin á myndinni.




コメント


bottom of page