Hópið 8. júní 2014
- Þorkell Daníel Jónsson
- Jun 8, 2014
- 2 min read
Erfitt að kasta flugu og annarri beitu vegna hundsins

Hópið hefur alltaf freistað mín því sögur herma að þar veiðist góður matfiskur af ýmsum stærðum og gerðum. Fyrir rúmum tuttugu árum gerðum ég og eiginkonan misheppnaða ferð í Hópið. Villtumst þá niður með Myrkubjörgum og vorum einhvern vegin týnd í tilverunni. Útsýni var slæmt og erfitt að átta sig á staðháttum. Á hvítasunnudag 2014 voru aðstæður aðrar því útsýni var ágætt. Við ókum beint niður á Ásbjarnarnes
Veðurspáin fyrir landið allt var hrikalega góð. Ef hún hefur gengið eftir höfum við sennilega verið í versta veðrinu á landinu. Norðan strekkingsvindur gerði að verkum að ekki var viðlit að kasta flugu á móti rokinu. Enn á ég því eftir að sannreyna hvort vænlegt sé að veiða á flugu í Hópinu. Annað gerði fluguköstin erfið en það var hundurinn Lappi.

Lappi var í sinni fyrstu veiðiferð og það reyndist töluvert vesen. Hið fyrsta var að hann leit á spúna, flotholt og maðka sem spennandi leikföng svo við þurftum stöðugt að vera á varðbergi svo hundurinn biti nú ekki á agnið. Fluguköst kölluðu einnig á varúð því Lappi var á stöðugu vappi fyrir aftan mann. Þegar fyrsti fiskurinn koma síðan á land þá fannst hundinum alveg sjálfsagt að hann fengi að éta hann. Fyrst eftir að við komum á staðinn leyst okkur ekki á blikuna. Sáum hundinn fyrir okkur steypast fyrir björg því hann hljóp um alla kletta fullkomlega laus við lofthræðslu. Þær áhyggjur reyndust áhyggjulausar því Lappi er fótafimur sem fjallageit. Áhuginn á veiðiskapnum læknaði Lappa síðan af vatnshræðslunni sem hefur hrjáð hann til þessa.
Tilgangur ferðarinnar var að fá fisk í soðið. Tókst það? Já en það var á mörkunum. Fyrst reyndum við fyrir okkur undan klettunum sunnanvert á Ásbjarnarnesinu. Sama vantrúarhugsunin sótti á mig og fyrst þegar ég stóð fyrir framan Þingvallavatn og Þórisvatn. ,,Eigum við svo að finna fisk í þessum gríðarlega vatnsbol?“ Út fór agnið og eftir um klukkustund síðar landaði ég 1,5 punda sjóbleikju. Skömmu síðar sé ég að eiginkonan var búin að setja í fisk. Ég hljóp til og náði í myndavélina, ekki háfinn því forgangurinn var að ná góðri veiðimynd. Ég sé að þetta er mjög vænn fiskur því stöngin kengbognar en þegar ég munda myndavélina verður allt laust. Fiskurinn sleit tólf punda línuna. Þá var skipt línu og sterkari lína sett á hjólið. Ekkert gerðist lengi vel. Á endanum hverfur þó flotholtið undir yfirborðið. Dóttirin er búin að setja í fisk. Sá fiskur komst í grjótið á botninum og þar stóð allt fast. Ekki var annað að gera en að slíta línuna.
Við ákváðum að ljúka þessari ferð í Hópið með því að veiða norðan megin við nesið. Þar er aðstaðan öllu betri. Fljótlega fengum við aðra 1,5 punda sjóbleikju. Heim fórum við með eina góða soðningu.

Comentários