top of page

Hólmavatn 17. júlí 2017

  • Þorkell Daníel Jónsson
  • Jul 17, 2017
  • 2 min read

Updated: Sep 17, 2022

Helkaldur norðanvindur og leirbrúnt vatn

 


Þau eru mörg Hólmavötnin á Íslandi í Stangveiðihandbókinni hans Eiríks um Vesturland tel ég þau níu og Hólmavatn á Hólmavatnsheiði er það tíunda. Þangað fórum við hjónin sunnudaginn var.

Hólmavatn er eitt af þremur vötnum á heiðinni norðan við bæinn Sólheima sem er síðasti bærinn í Laxárdal áður en ekið er upp á Laxárdalsheiði. Hin vötnin tvö heita Reiðgötuvatn og Gullhamarsvatn. Við létum okkur Hólmavatn nægja að þessu sinni en það er áhugavert að skoða hin vötnin einnig því það er einnig silungur í þeim, bæði urriði og bleikja. Hólmavatn er ágætis vatn og stendur í 205 metra hæð yfir sjávarmáli. Það er 0,80 ferkílómetrar að stærð og frekar grunnt.

Í fyrra heimsóttum við vatnið í fyrsta sinn og satt best að segja tók það ekki vel á móti okkur. Var leirbrúnt að lit og norðanvindurinn barði á okkur þannig að heim héldum við í það skiptið helköld og aflinn lítill. Vitandi það að íslensk náttúra á sér margar hliðar svo við hikuðum ekkert við að heilsa upp á vatnið aftur í ár. Í fyrra voru Sólheimavötnin í veiðikortinu en svo er því miður ekki í ár þannig að við byrjuðum á því að leita eftir heimild eigenda til að veiða í vatninu. Í ljós kom að eignarhald að vötnunum hafði breyst. Við leituðum nýjan eiganda uppi og hann tók vel í það að við fengjum að verja einni kvöldstund við vatnið.


Aftur heilsaði vatnið okkur leirbrúnt að lit því strekkings vindur barði vatnið. Nú blés hann að suðvestan. Okkur leist ekki alveg nógu vel á þetta en suðvestan áttin er þó skömminni skárri en norðanáttin því hún er hlýrri. Okkur bar fyrst niður á austubakka vatnsins. Héldum að þar væri vænlegt að reyna því við sáum að hugsanlega gætum við kastað út í skil í vatninu þar sem hreinna vatn mætti grugginu. Það reyndist örðugt að veiða af þessum bakkanum. Bæði vegna vindsins sem var í fangið og góðurs. Við færðum okkur yfir á norðurbakkann. Í fyrstu var frekar rólegt þannig að ég ákvað að rölta með flugustöngina eftir vesturbakkanum og veiða til baka. Sagði eiginkonunni að ég myndi verja eins og klukkustund í þetta rölt. Það dróst í þann tíma því ég varð var við fisk og náði að landa þremur.


Ég hefði reynt áfram þarna og eflaust náð að krækja í fleiri silunga en svengd hrakti mig til baka. Á þessum tíma hafði frúin einnig náð að landa þeim nokkrum. Hún var í beituveiðinni en ég í fluguveiðinni. Það skal ég viðurkenna að frúin hafði betur að þessu sinni og átti fleiri landanir. Þegar upp var staðið náðum við fjórtán urriðum og einni bleikju á land. Urriðarnir tóku ýmist beitu eða flugu. Svo virtist sem litlar púpur hafi freistað urriðans meira en straumflugurnar. Spúnn virkaði lítið en eina bleikjan tók spúninn.




Comments


bottom of page