Hólmavatn 16. júlí 2015
- Þorkell Daníel Jónsson
- Jul 18, 2015
- 2 min read
Hefði þurft þyngri línu.

Mér varð hugsað 28 ár aftur í tímann þegar fjölskyldan ók fram hjá Laxárvatni á Laxárdalsheiði fimmtudaginn 16. júlí. För okkar var heitið í Hólmavatn sem er á sömu heiði þrjá km. norðan við bæinn Sólheima.
Hugsunin aftur í tíman var vakin af minningu um veiðiferð í Laxárvatn með tengdaföður mínum heitnum en sú ferð var hans síðasta. Heilsan leyfði ekki fleiri veiðiferðir. Á þessum árum var fjárhagurinn ekki beysinn og leyfði ekki neina eðalbíla. Ökutækið var einhver fjögurra gíra Harlemútgáfa af BMW. Laxárdalurinn fór illa með greyið því báðir framdempararnir gáfu sig og bíllinn lét eins og hann væri í stjórsjó á leiðinni til baka í Brautarlæk.
Að þessu sinni vorum við betur akandi og ferð var heitið í vatn sem við höfum aldrei veitt í áður. Troðningurinn upp að vatninu telst ekki fólksbílafær en Kian okkar átti auðvelt með þetta. Þegar við komum að vatninu sáum við strax að Hólmavatn er grunnt vatn. Það var moldarlitur á því öllu. Ástæðan var sterkur norðanvindurinn sem hefur verið að ergja okkur hér á mið – Vesturlandi í á að nálgast hálfan mánuð. Hitinn var átta gráður þegar við komum að vatninu og sex gráður þegar við fórum af heiðinni klukkan tíu um kvöldið.

Þessar aðstæður verða seint taldar hagstæðar stangveiðum en við þraukuðum í fimm klukkustundir þarna á heiðinni í roki og gæftarleysi. Ég barðist allan tíman við norðanáttina með flugustöngina að vopni en fékk ekki eitt einasta högg. Fyrsta flugan sem dóttirin hnýtir skilaði engu, ekkert frekar en aðrar flugur. Að öllu jöfnu hefði ég notað þyngri línu við þessa aðstæður en þegar ég er að yfirfara græjurnar deginum áður sé ég að Jaxon fluguhjólið er bilað. Skrúfan sem heldur spólunum á hjólinu er farin að svíkja og spólurnar fljúga af hjólinu við minnstu hreyfingu. Nú reynir á þjónustuna hjá Veiðiportinu. Eiga þeir varahluti í þessi hjól?

Comentários