top of page

Hítará, Grjóta og Tálmi 12. og 13. júlí 2009

  • Þorkell Daníel Jónsson
  • Jul 14, 2009
  • 1 min read

Ég var að hugsa um pabba þegar laxinn tók.

 

„Ég var að hugsa um pabba og það að hann dó á brúðkaupsdaginn okkar og þá tók laxinn.“ Þetta sagði eiginkonan mér og hélt á fallegum smálaxi sem hún náði upp úr húshylnum í Grjótá. Það var ekkert undarlegt að þessi hugsun hafi læðst að henni við þessa iðju því tengdapabbi var mjög áhugasamur um allar veiðar og stundaði þær töluvert á meðan hann var bóndi í Norðurárdalnum. Þar skaut hann marga rjúpuna og tófuna og veiddi bæði lax og silunga. Á efri árum þegar líkaminn og aðstæður leyfðu ekki útivist og hark lengur fylgdist hann af áhuga með veiðferðum okkar hjóna og hafði unun af því að ræða veiðina og segja sögur af veiði frá fyrri tíð.


Við áttum tvo veiðidaga á efsta svæðinu í Hítará og hliðaránum Grjótá og Tálma. Veiðin var nú ekki til að hrópa húrra yfir því við urðum lítið vör við lax. Eiginkonan náði þeim eina sem við veiddum og veiðifélagar okkar fengu tvo. Allir voru laxarnir í kringum fjögur pund. Veiðiumhverfið þarna upp frá er hreint stórkostlegt þannig að þrátt fyrir lítið líf í ánum var vel þess virði að dvelja þarna í fallegu veðri þessa tvo daga.




Comments


bottom of page