top of page

Hítarvatn 6. júlí 2018

  • Þorkell Daníel Jónsson
  • Jul 7, 2018
  • 2 min read

Updated: Jun 21, 2022

Vöðluhremmingar

 

Hér eru veiðfélagarnir að leggja af stað í gönguna. Vatnið spegilslétt og maður sá silunginn vaka um allt vatn. Á miðlju vatninu var fjöldi álfta að spóka sig í sólinni. Klettarinir hægra meginn niður við vatnið á miðri mynd heita Stóruklif.

Félagi minn hringdi í mig á miðvikudaginn til að kanna hvort ég hefði stund til að fara í smávegis gönguferð á föstudeginum. Ég taldi mig nú hafa það. Leiðina þekktum við vel því við höfum nokkrum sinnum áður gengið inn að Suðurdalsá í norðurenda vatnsins. Stundum höfum við lenti í ágætri veiði þarna, jafnvel ævintýralegri. Það er samt aldrei á vísan að róa í veiðinni og maður getur lent í hverju sem er, jafnvel hremmingum. Hremmingar urðu hlutskipti mitt í þessari ferð.


Hér sést í fossinn í Suðurdalsá. Á kortum sé ég tvö eyðibýli merkt á þessu svæði. Gínandi sem er við norðvesturhorn vatnsins, Bjúgkot sem er fyrir miðju vatni. Einnig hef ég heyrt Tjaldbrekku nefnda en veit ekki hvar það býli hefur verið.

Sólinn hefur verið fáséð sunnanlands undanfarna mánuði. Svo mjög að það þarf að leita aftur til ársins 1914 til að finna annað eins sólarleysi á suðvesturhorninu. Það sama má segja um rigningartíðina. Það þarf einnig að leita hundrað ár aftur í tímann til að finna aðra eins ótíð í þeim efnum. Það verður því að teljast markvert mjög að blessuð sólin yljaði okkur á meðan við undirbjuggum okkur fyrir gönguna. Vegna tíðarfarsins var hærra í vatninu en við höfum áður séð. Vatnsflöturinn var spegilsléttur og fjöldi álfta spókaði sig í blíðunni úti á miðju vatni.



Smá göngupása við Stóraklif sem er eiginlega eini hluti göngunnar sem er eitthvað á fótinn. Lauslega áætlað er gangan 7,5 km hvora leið og alls ekk erfið.

Fljótlega eftir að við komum inn í botn fór sólin í felur bak við ský og hélt sig þar það sem eftir lifði ferðar. Það hvessti þannig að við vorum að berjast við að koma flugunum út á móti sunnanáttinni. Mínar hremmingar byrjuðu eiginlega um leið og ég óð út í. Vatn streymdi inní vöðlurnar hér og þar. Flaumurinn var slíkur að ég hefði nánast getað sleppt því að vera í þeim. Fljótlega var mér ekki vært úti í vatninu því Hítarvatn er kalt. Náði þó einni bleikju áður en ég ákvað að rölta í rólegheitum til baka. Freistaðist þó til að kasta öðru hvoru þar sem lækir runnu út í vatnið. Ég náði að setja í eina þokkalega bleikju í norðvesturhorni vatnsins en skömmin slapp. Til sárabótar náði ég að setja í einn punds urriða og landa honum. Annars sullaðist ég bara í rólegheitunum þessa 7,5 kílómetra meðfram Vatnshlíðinni þar til ég var kominn að bílnum. Á meðan náði félagi minn að tína upp eina tíu silunga við Suðurdalsá.


Vöðlurnar sem brugðust mér svona illa í þessari ferð fékk ég í fimmtugsafmælisgjöf. Það mælir varla með þeim að þær hafi byrjað að leka eftir tæplega eitt sumar í veiði. Eftir fyrstu viðgerð bættust bara við ný og ný göt. Ég velti fyrir mér hvort maður eigi bara að gefa goretexið upp á bátinn og snúa sé að neophrane vöðlum aftur. Maður er hvort sem er alltaf í vatnaveiði. Eða á ég bara að dröslast upp á háaloft því þar eru gamlar goretexvöðlur sem ég keypti í Nanouq fyrir löngu síðan. Ef til vill halda þær vatni.


Ég held að þetta sé norðurendinn á Fagraskógarfjalli. Aðeins neðar í dalnum, ekki langt þó féll stærsta aurskriða sem fallið hefur á Íslandi frá landnámi. Ástæðuna má rekja til rigninganna í maí, júní og það sem af er júlí. Aurskriðan stíflaði Hítará þannig að nú þarf áin að finna leið fram hjá skriðunni. Það verður fróðlegt að fylgjast með hvernig náttúran bregst við þessum hamförum.

Comments


bottom of page