top of page

Hítarvatn 6. júlí 2015

  • Þorkell Daníel Jónsson
  • Jul 7, 2015
  • 3 min read

Kynnin endurnýjuð

 

Komnir inn í botn. Burstaá rennur þarna í vatnið. Í rennunni sem áin hefur myndað liggur bleikjan. Foxufellið er fyrir aftan Kela og fjallið Hólmur við enda vatnsins hægra megin á myndinni.

Það eru orðin nokkur ár síðan ég veiddi síðast í Hítarvatni þannig að tími var kominn til að endurnýja kynnin. Þess vegna var það auðsótt mál þegar félagi minn viðraði þá hugmynd að við myndum bregða okkur vestur og veiða einn dag í vatninu.


Dagsáætlunin var að ganga inn með Vatnshlíðinni inn í norðurenda vatnsins og veiða þar yfir daginn. Þegar kvöldaði ætluðum við að veiða á völdum stöðum undir Vatnshlíðinni á leiðinni til baka. Gangan er um það bil ellefu kílómetra löng og tekur tvo tíma. Þetta er til þess að gera létt ganga og lítið á fótinn. Þegar við komum að stíflunni voru eldri maður og annar á miðjum aldri að leggja af stað inn með hlíðinni. Þeir voru greinilega í sömu hugleiðingum og við. Sá gamli var orðinn vel við aldur og ég dáist að því að maður á hans aldri hafi líkamlega burði í svona hark. Ég vona svo sannarlega að ég beri gæfu til að geta leikið þetta eftir honum eftir tuttugu ár.


Við vorum fljótir að ganga þá félaga upp. Í ljósi aldursmunar hefði annað auðvitað gert okkur skömm til. Við tökum smá spjall og sá gamli segir: ,,Þar sem þið eruð kunnugir á þessum slóðum ættuð þið að geta svarað þessu. Hér fremst er Foxufellið og fyrir ofan það er Grafheiðin en hvað heitir fjallið þarna“ og bendir með stafnum sínum á fjallgarð norðan við Grafheiðina. Þar sem ég hef aðeins spáð í örnefnin í kringum vatnið hefði ég átt að geta svarað þessu en mér til vansa þá gat ég ómögulega munað heitið á fjallinu. Eftir að hafa glöggvað mig á þessu þegar heim var komið held ég að ég fari rétt með þegar ég segi að næst vatninu norðan við Foxufellið séu Lambahnúkar en fjöllin fjær sem sá gamli benti á heiti Smjörhnúkar. Dalurinn austan við Lambahnúkana heitir Burstadalur. Sá gamli sagðist hafa lesið gamalt ljóð um þetta svæði þar sem Foxufellið var kallað Kakalafjall. Hann skýrði heitið kakali og sagði það hafa átt að líkja eftir gaggi tófunnar.


Fremst eru Lambahnúkar en fjöllin með snjónum í heita Smjörhnúkar.

Þegar við komum inn í botn leist okkur ekki á blikuna því þar var fjöldi tjalda. Helst leit út fyrir að þarna væri ættarmót í gangi. Sem betur fer var þetta göngufólk sem ákvað að hvíla lúin bein í Tjaldbrekku áður en næsti áfangi göngunnar yrði tekinn. Við hófum veiðarnar út af Burstaá en lítið var lífið að okkur fannst. Nokkru síðar mættu sá gamli og félagi hans og það var ekki að spyrja að því. Sá gamli byrjaði að slíta bleikjurnar upp. Hann var ósínkur á ráðin þegar hann sá að við vorum ekki að veiða. Flugan sem hann notaði var Teal and black og veiddi á hægsökkvandi línu. Ég var að veiða á flotlínu og hinar og þessar flugur. Í fluguboxinu hjá mér var engin Teal and black en félagi minn lumaði á nokkrum.

Vegna lánleysis okkar félaganna var auðvitað ekki um annað að ræða en að prófa nýja aðferð svo ég setti hægsökkvandi flugulínu undir og fyrrnefnda flugu og viti menn. Ég fékk strax töku. Landaði síðan fjórum urriðum í beit og skömmu síðar þeim fimmta. Í maga urriðanna var lirfa sem leit nákvæmlega eins út og Teal and black án vængja. Hvers vegna ég fékk eingöngu urriða en sá gamli eingöngu bleikju kann ég enga skýringu á aðra en þá að hann hafi verið á bleikjuslóð en ekki ég. Það geta auðvitað verið ýmsar skýringar á verri aflabrögðum en áður á þessum slóðum. Ein skýringin gæti veri óhagstæð vindátt því að þessu sinni var vindáttin norðanstæð en í fyrri ferðum var hún sunnanstæð.


Vegna tregðu fisksins til að taka voru byrðarnar engu þyngri en um morguninn. Þegar ég var að loknum þessum ágæta degi að búa mig til svefns í Brautarlæk um nóttina sé ég að ég er orðinn tánögl fátækari á vinstri fæti og að öllum líkindum mun ég einnig tapa nögl af þeim hægri. Þarna kom skýringin á eymslunum sem ég var farinn að finna fyrir á göngunni til baka. Árans vöðluskórnir. Ég get þó huggað mig við að fjölskyldan er tveimur máltíðum ríkari.

Comentários


bottom of page