top of page

Hítarvatn 18. júní 2004

  • Þorkell Daníel Jónsson
  • Jun 20, 2004
  • 5 min read

Nóg af silung.


Á toppi Foxufells um miðjan júní 2003 hófst undirbúningur ferðarinnar. Þá datt upp úr félaga mínum Erni Halldórssyni. „Ég hugsa að Valli hefði gaman að þessu.” Þar með var það ákveðið að farið yrði að ári og Valla boðið með. Þegar hugmyndin var viðruð við hann í einhverjum smíðaklúbbnum um veturinn stóð ekki svari. Veiðimaður eins og hann hlaut að verða spenntur enda var ýtt undir áhugann með mergjuðum sögum um taumlausa veiði. „Til er ég,” var svarið.


Ætlunin var að leggja af stað í bítið föstudaginn 18. júní, veiða til kvölds og laugardaginn einnig. Á miðvikudeginum var farið að bera á spenningi enda hafði veiðin verið með eindæmum góð árið áður. Við Örn höfðum samt ekki trú á að við myndum lenda í sömu ævintýrunum því slíkt gerist varla tvö ár í röð. Dagana á undan var Valla eitthvað farið að kvíða því að dröslast með þungan bakpokann yfir úfið Hólmshraunið og síðan yfir Foxufellið enda gjörsamlega óvanur göngum. Hann vildi heldur ganga eftir Vatnshlíðinni sem er vestanmegin við vatnið. Við Örn vorum reiðubúnir til þess enda hafði það verið ætlunin. Við vorum bara svo uppnumdir yfir tilkomumiklu landslaginu á austurbakkanum að við vildum endilega að Valli fengi að upplifa það eins og við höfðum gert svo sterkt árin á undan.


Þegar austurbakkinn er genginn þarf fyrst að ganga töluverðan spotta yfir úfið hraun. Þá er betra að vera í skóm sem styðja vel við ökklann. Það væri einkar óskemmtilegt að flengjast á hausinn á þeirri leið. Næst tekur við auðveld ganga þangað til komið er að Foxufellinu. Foxufellið er 419 m hátt móbergsfjall sem tekur út svitann á úthaldslitlum mönnum. Þegar upp á það er komið þarf að klöngrast niður með hrikalegri fjallshlíðinni norðanverðri. Á þeim hluta leiðarinnar gnæfir yfir okkur snarbratt móbergið allt sorfið vindum. Dálítið hrikalegt. Þegar móbergsklettunum sleppir tekur tiltölulega auðveld ganga við niður hlíð þar til komið er inn í norðurenda Hítarvatns. Þessa leið höfum við gengið í þrígang. Í fyrsta skiptið röskuðum við ró minnks sem þarna átti sitt bæli. Í annað skiptið rákumst við á örn sem sat í klettunum þar sem Foxufellið slútir fram í vatnið. Þegar örninn varð okkar var henti hann sér fram af klettunum og sveif hægum og tignarlegum vængjatökum yfir vatnið. Í þriðja sinn varð fálki ósáttur við mannaferðir í gegnum ríki sitt og lét það óspart í ljós.


Í ár ákváðum við að ganga eftir vesturbakka vatnsins. Okkur fannst líklegt að sú ganga væri auðveldari en gangan eftir austurbakkanum.




Veiðileyfin keyptum við fyrirfram hjá Stangveiðifélagi Reykjavíkur á 2500 kr. Dálítið dýrt miðað við silungsveiði í vatni en það er hægt að hugga sig við að veiðivonin er mikil. Það er einnig hægt að kaupa leyfi á bænum Hítardal. Á þessum bæ átti sér stað einn skelfilegasti atburður Íslandssögunnar þegar Skálholtsbiskupinn Magnús Einarsson brann inni ásamt 70 – 80 manns í lok september árið 1148. Í Hítardal eru aðeins tveir bæir þar sem Hítardalur er annar en Helgastaðir hinn. Efst í dalnum er lítið móbergsfjall sem ber nafnið Hólmur en það afmarkar suðurenda vatnsins. Undir fjallinu er gangnamannakofi en þar stóð áður bær Bjarnar Hítdælakappa en hann þótti mikill kempa. Sagan segir að hann hafi ásamt Gretti sterka Ásmundssyni sett Grettisstillur út í Hítará. Grettisstillur eru steinar sem settir voru í röð yfir ána og þá hafi síðan ekkert hreyft. Einnig segir sagan að Björn hafi hlaðið mikinn grjótgarð þvert yfir landareign sína. Það má ennþá sjá leyfar af grjótgarðinum.


Þegar við komum að vatninu snörum við 19 – 22 kg. þungum bakpokunum á bakið, prikumst yfir stífluna á Hítará og gangan hófst. Veðrið var eins gott og það getur verið. Logn og ekki of heitt enda var sú litla gjóla sem öðru hvoru gerði vart við sig norðanstæð. Flugan var óþægilega aðgangshörð. Gangan inn með vesturbakka vatnsins reyndist fremur auðveld enda þarf hvergi að fara í mikinn bratta. Þetta reyndist margfalt auðveldari ganga en að gangan austanmegin við vatnið. Það er gengið undir Vatnshlíðinni sem er nokkuð gróin alla leið inn í botn. Það skiptast á mýrar og þýft land en lengst af er hægt að ganga með vatninu. Votlendið var ekki meira en svo að við þurftum aldrei að krækja fyrir það.


Eftir tveggja tíma göngu tjölduðum við innst við norðurenda vatnsins rétt við Burstará, stærsta vatnsinnfallið í vatnið. Eftir að hafa borðað kvöldverðinn voru veiðafæri gerð klár. Valli þreif vöðlurnar upp úr bakpokanum sínum og sagði þau fleygu orð. „Ég er heimskur.” Karlgreyið hafði tekið vitlausar vöðlur. Ekki góð byrjun það. Síðan var hafist handa við veiðarnar. Nú bar svo við að vindáttin var orðin suðvestanstæð og farið að rigna. Við sem höfðum gert ráð fyrir sólskini og stillu vorum lentir í roki og rigningu. Þarna um kvöldið slitum við upp nokkra urriða en það var ekki hægt að segja að veiðin hafi verið eitthvað í líkingu við það sem við höfðum áður lýst fyrir Valla.

Að morgni laugardags var brostin á slík veðurblíða að það gerist varla betra. Framundan var Hítarvatnið í öllu sínu veldi. 7,6 ferkílómetra stórt og 24 metra djúpt þar sem dýpst er. Úti í vatninu eru nokkrir blómum skrýddir hólmar. Fuglalíf er töluvert í kringum vatnið en það hefur samt látið á sjá og er minnkurinn, sá mikli spellvirki grunaður um græsku. Vatn af þessari stærðargráðu hlýtur að geyma boldangsurriða en eins og veiðimenn þekkja þá eru þeir ekki auðteknir. Það er algengast að fólk reyni aðveiða sunnanvert við vatnið enda er auðveldast að komast að vatninu úr þeirri áttinni. Við höfum hins vegar sannreynt að það er von um stærri fisk í norðurendanum og þess vegna leggjum við gönguna á okkur.




Nú bar svo við að veiðin var eins og við Örn könnuðumst við hana. Fantagóð. Á stuttum tíma þarna um morguninn lönduðuðm við hverri bleikjunni á fætur annari og einstaka urriða. Einu sinni vorum við allir þrír að landa fiski á sama tíma. Bleikjan virtist vera gráðug í fluguna og engu máli virtist skipta hvort flugunni var sökkt eða látin fljóta á yfirborðinu. Það var stórskemmtilegt að sjá hana taka þurrfluguna í yfirborðinu. Ef við ætluðum að ná í urriða þá var betra að beita makríl. Bleikjan vildi hins vegar ekki sjá markílinn.


Fiskurinn sem við vorum að taka var ekki stór. Allir þó pönnutækir. Við Örn hirtum fiska sem voru 1 – 2 pund. Valla finnst það glæpur að sleppa veiddum fiski og hirti allt. Kjóinn var áhugasamur um aðfarir okkar og sýndi veiðarfærunum áhuga. Eitt skiptið sáum við hvar flotholtið hjá Valla var 30 metrum fyrir ofan yfirborð vatnsins en þá hafði kjóinn steypt sér á það. Í annað skiptið flaug kjói af stað með stöngina hans Arnar. Sem betur fer flaug hann vestur yfir Burstará en ekki suður yfir vatnið. Hefði kjóinn gert það hefði Örn ekki séð stöngina meir. Það var óskemmtilegt að losa fuglinn af önglinum.


Heimgangan var öllu þyngri þraut en gangan á veiðisvæðið. Byrðarnar miklu þyngri enda var Valli örþreyttur þegar við loksins komum að bílnum. Hann sagðist aldrei gera þetta aftur. Við sjáum nú til með það.




Kommentare


bottom of page