top of page

Hreðavatn 28. maí 2016

  • Þorkell Daníel Jónsson
  • May 29, 2016
  • 2 min read

Girðingavinna fyrst en síðan veiði

 

Lambhagi við Hreðavatn. Lambhagi er fyrir miðju vatninu en það er annar Lambhagi við vatnið. Hann er austanvert við vatnið niður undan fjárhúsunum.

Við hjónin vissum að girðingin meðfram veginum í Brautarlæk var löskuð eftir veturinn og Hólsrollurnar farnar að renna fram dalinn. Það var sem sagt ekkert val um í hvað verja skyldi þessari helginni. Vinnufötunum var pakkað í tösku og ekið upp í Norðuráral. Á síðustu stundu ákvað ég að grípa veiðdótið með ef ske kynni að einhver orka yrði aflögu fyrir smá veiði í Hreðavatni á laugardagskvöldinu. Mér fannst eiginlega of langt liðið á vorið án þess að reynt væri við vatnafiskinn.


Forgangurinn þessa helgina var samt girðingin. Á hverju ári undanfarin þrjátíu ár hef ég haldið þessari girðingu við. Fyrst með tengdaföður mínum sem þá var komin nokkuð við aldur. Girðingin afmarkar landið í kringum Brautarlæk sem er 1,7 hektarar og var áður afgirt hólf sem kýrnar fengu stundum að verja sumardögum í. Ekki myndi þetta nú teljast mikil girðingavinna samanborið við það að halda við girðingu í kringum heila bújörð. Eitthvert vorið nefndi ég þetta við tengdaföður minn. Hann samsinnti því að girðingamál gátu verið vandræðamál og rifjaði upp gömul samskipti við bóndann á næsta bæ. Þeir höfðu sammælst um að lagfæra girðinguna á milli jarðanna frá Norðurá og upp að vatni. Annar gerði sér ferð í Kaupfélagið og mætti í verkið með fyrirtaks girðingaefni en hinn hefur sennilega farið í ruslahauginn því hann mætti með tunnustafi. Þannig var þetta á þeim tíma. Fólk hafði sáralítið fé milli handanna þannig að allt sem var nýtanlegt var nýtt.

Girðingavinna upp á gamla mátann sumarið 2005.

Að loknu góðu dagsverki við girðingavinnu var tekinn síðdegisblundur og síðan kvöldmatur. Þá var skrokkurinn orðinn klár í veiðiskap. Um níuleitið ókum ég og dóttursonur tengdaföður míns niður Norðurárdalinn í Hreðavatn. Við stöðvuðum til móts við Lambhagann sem er fyrir miðju vatni og hugðumst veiða í kringum hann. Vatnið var lygnt enda hafði suðaustan áttin sem hafði verið ríkjandi allan daginn gengið niður. Hlýtt var og bara hið notalegasta veiðiveður.


Ég setti rauðan Nobbler undir og kastaði um það bil þrjá metra frá bakkanum. Dreg síðan meiri línu út af hjólinu. Á meðan tók fyrsti fiskurinn. Stuttu síðar sá næsti og sá þriðji. Allir tóku þeir Nobblerinn. Síðan var smávegis hlé þannig að ég færði mig yfir á lítinn tanga austan megin við Lambhagann. Þar tók fjórði fiskurinn Peacock púpu. Strákurinn var með spún en fiskurinn vildi hann síður en fluguna. Hann náði þó einum smáfiski. Þrír fiskanna voru urriðar og einn þeirra bleikja. Konan mín sagði að þetta hefði verið nokkurn vegin hlutfallið í netunum þegar hún vann í ráðsmennsku á bænum við vatnið þegar hún var unglingur. Bleikjan í vatninu er mjög smá. Af þessum þrem fiskum var bleikjan þó stærst. Þetta þykir mér ágætis byrjun á veiðisumrinu.

Comments


bottom of page