Hraunsfjörður í júlí 2005
- Þorkell Daníel Jónsson
- Jul 21, 2005
- 1 min read
Veitt við vesturbakkann.

Við Guðrún ásamt þeirri litlu ókum inn með Hraunsfirði vestan megin og ætluðum okkur að egna þar fyrir fisk. Ekki var árangurinn neitt til að hrópa húrra fyrir en Guðrún setti í fallega bleikju og landaði henni.
Mér skilst að þegar líða tekur á sumarið þa bunki bleikjan sig þarna innst í firðinum. Eitthvað reyndi ég að vaða þar út en þótti mér það önugt því maður sekkur í drulluna í botninum og getur sig hvergi hrært. Þetta þykja mér einna leiðinlegustu og varhugaverðustu veiðaðstæðurnar sem maður kemst í. Innst í firðinum er dalurinn Árnabotn. Þar eru víst leyfar þriggja eyðibýla og er eitt þeirra er Botn þar sem Árni nokkur bjó. Botn var aumasta kot enda varla búandi þarna inni í dalnum því þangað nær sólin lítinn hluta ársins. Árni náði sér samt í mektarkonu en það var með klækjum sem hann náði að festa sér hana. Hann var á ferð og fær gistingu á ókunnu prestsheimili. Þrjá morgna í röð lítur Árni til veðurs og tautar með sjálfum sé en samt svo presthjón heyra. ,,Ætli bátar mínir sigli í dag?“ Þau að sjálfsögðu drógu presthjónin þá ályktun að hér væri kominn forríkur mektarmaður af Vesturlandi. Það varð úr að Árni giftist dóttur þeirra hjóna og hélt með hana heim þar sem hið sanna kom í ljós. Svona var Árni undirförull enda var um hann kveðið.
Árni í Botni, allur rotni. Ekki er dygðin fín. Lastabæli, það er hans hæli. Þar sem sólin aldrei skín.
Comentários