top of page

Heiðarvatnið 7. september 2024

  • Þorkell Daníel Jónsson
  • Sep 9, 2024
  • 2 min read

Hvað varð um fiskinn?

 

Ætli það geti verið að urriðinn í heiðarvatninu sé með hugann við eitthvað annað en að éta þegar ágúst sleppir? Ég hef svo sem ekki oft reynt veiðar í vatninu í september en í þau fáu skipti sem það hefur verið reynt hefur vatnið ekki gefið vel. Fyrsta laugardag í september gerði ég mér ferð í vatnið og aðstæður voru nákvæmlega þær sem tengdapabbi sagði að væru kjöraðstæður, sterk suðvestanátt. Hann sagði að við þær aðstæður gengi urriðinn inn í Veiðvíkina.


Ég byrjaði samt ekki í Veiðivíkinni. Gekk rakleiðis að klettinum sunnan við Grunnuvík. Þar byrjaði ég að kasta en varð ekki var. Veiddi inn í víkina norðan við klettinn. Þar var einu sinni þrifið í agnið en ekki nema í það eina sinn. Gekk þá áfram til suðurs að hrygningarstöðvunum. Þar óð ég langan veg út í vatnið í átt að Himbrimahólmanum. Kastaði ótt og títt á meðan ég fetaði mig áfram til norðurs og fékk fljótlega einn smáan urriða. Batt hann með spotta við smeyginn á vöðlunum því ég nennti ekki að vaða í land. Fljótlega átta ég mig á að urriðinn var horfinn. Hnúturinn hafði losnað.


Eftir að hafa veitt áfram um stund ákvað ég að snara á mig bakpokanum og gekk bakkann til norðurs. Ætlaði að athuga hvort urriðinn hafi nú gengið inn í Veiðivíkina. Stoppaði á leiðinni til að borða kvöldmatinn. Að honum loknum stend ég upp til að ganga áfram. Þá rek ég augun í urriðan sem ég hafði týnt. Hann hafði sem sagt flotið sömu leið og ég gekk. Veiddi síðan um stund í Veiðivík, Breiðavík og á bakkanum vestur af Breiðavík. Fékk ekki högg.


Ég gaf þessari veiðiferð ekkert allt of langan tíma og lagði af stað heim á leið um níuleitið. Var frekar ánægður með gönguþrekið því ég fann lítið fyrir þessu. Það fór nú samt svo að þegar ég var kominn í hvíld að göngu lokinni fékk  ég hreint ferlegan sinadrátt. Ég verð að gæta þess héðan í frá að drekka nóg í svona ferðum. Þessu vill ég ekki lenda í aftur.




Comentarios


bottom of page