top of page

Heiðarvatnið 6. ágúst 2023

  • Þorkell Daníel Jónsson
  • Aug 7, 2023
  • 2 min read

Updated: Apr 17, 2024

Smíðaannir

 

Hér í Brautarlæk hefur ekkert rignt í sex vikur. Ár og vötn eru til vitnis um úrkomuleysið og Norðuráin liðast fram hjá okkur eins og lítill lækur. Ef það hefðu ekki verið svo miklar annir hjá okkur hjónunum í sveitinni hefðum við örugglega nýtt tímann til veiðiferða. Smíðaverkefnin urðu að fá forganginn að þessu sinni.


Loksins núna undir lok sumarleyfisins varð smá hlé á smíðavinnunni. Erum langt komin með að eingangra smíðaskúrinn, búin að setja upp lítinn sex fermetra geymsluskúr og slá upp fyrir grunni undir nýjan Brautarlæk. Eigum við ekki skilið að fara í veiði núna? Ég held það.


Stóra verkefnið þetta sumarið. Að slá upp fyrir nýju húsi í Brautarlæk. Stefnum að því að steypa sökkulveggina í ágúst.


Ég ákvað að gera mér ferð í Heiðarvatnið en eiginkonan nennti ekki með. Aðallega vegna hundsins sem getur ekki verið til friðs í veiðiferðum. Veðrið var einstaklega gott. Ekki glampandi sól en þurrt, fimmtán gráðu hiti og andvari þegar ég hóf veiðar um tvöleitið. Ég leitaði víða að fiski en ég varð ekki var. Rétt fyrir sjö um kvöldið snerist suðvestan andvarinn yfir í norðaustan golu. Ég var búinn að veiða helstu staði á austurbakkanum og í kringum Réttartangann. Allt steindautt að manni fannst. Þegar kom á einn af þeim stöðum í vatninu sem hafa gefið okkur einna besta veiði var áfram það sama upp á teningnum. Ekkert líf.

Eftir kvöldmat rölti ég yfir í Breiðuvíkina og kastaði þvert á hana frá vestri. Ég fékk engin viðbrögð þannig að ég var farinn að huga að heimferð. Þá tekur 2,8 punda urriði spúninn hjá mér. Að sjálfsögðu var reynt áfram en ekki tók annar. Ég hugsaði með mér að það hlyti að vera fiskur á þeim stað sem ég var áður. Rölti með flugustöngina til baka og fljótlega tekur tveggja punda urriði svartan nobbler. Aftur er kastað og aftur er þrifið í nobblerinn. Það var stór fiskur sem tók vel í. Mér til armæðu sleit hann og ég hafði gleymt flugum við Breiðuvíkina. Ég sótti fleiri flugur og kaststöngina og landaði þremur urriðum til viðbótar. Tveimur á rauðan nobbler. Nobblerinn hvarf síðan í vatnið með urriða sem sleit. Þá var spúninum hent út og einum urriða landað til viðbótar. Allir voru þeir í kringum þrjú pund. Afrakstur ferðarinnar urðu fimm urriðar, tvö til þrjú pund.


Vatnsstaðan í vatninu er ansi lág enda hefur júlímánuður verið einstaklega þurr.


Gangan heim í myrkrinu er alltaf skemmtileg eða þannig. Orðinn þreyttur og hálf aumur í fótunum enda búinn að ganga allan daginn. Ég sá lítil merki um að það hafi verið fólk á ferð við vatnið en greinilega hafði hestahópur átt leið hjá vatninu.

Comments


bottom of page