Heiðarvatnið 20. ágúst 2016
- Þorkell Daníel Jónsson
- Aug 24, 2016
- 2 min read
Engin veiði en það er nóg af berjum

Í kjallaranum hjá okkur er fokheld íbúð hvurs endurbætur á eru að stela öllum okkar frítíma þetta sumarið. Þess vegna eru litlar frásagnir af veiði í júlí og ágúst. Á meðan hafa bláberin þroskast við sumarkofann Borgarfirðinum og nú fer urriðinn að hætta sér nær landi í heiðarvatninu því nú er tekið að dimma af nótt. Okkur hjónunum þótti samt ótækt að láta haustið líða með bláberin ótínd úti í móa og engin tilraun gerð til að sækja urriðann í vatnið. Þess vegna tókum við okkur frí frá brasinu í kjallaranum og fórum í sveitina helgina 19. – 21. ágúst. Veðurspáin gaf fyrirheit um notalega útiveru í sól og hita.
Veðurspáin gekk eftir og þegar við lögðum af stað upp hálsinn fyrir ofan við sumarkofann í átt að vatninu á laugardeginum. Sól skein í heiði, hitinn var um 15 gráður og mildur vindur blés frá austri. Slóðinn var opinn þannig að við gátum ekið langleiðina upp hálsinn. Í fyrsta sinn fékk Kian okkar að reyna alvöru fjallaveg. Hún stóð sig ágætlega en ekki getum við nú sagt að hún jafnist á við gamla Landroverinn. Við ákváðum að fara ekki lengra en að Guðrúnarvörðu og skilja bílinn eftir þar. Guðrúnarvarða er við endann á Hádegisborgum sem nefndar eru svo vegna þess að sólin ber við borgirnar frá bænum séð á hádegi. Hver ætli hún sé þessi Guðrún sem er svo fræg að fá vörðu nefnda eftir sér? Það er engin önnur en eignkona mín kær sem fyrir rúmum fjörutíu árum, þá átta ára gömul fór eitt haustið á hesti með eldri systkinum sínum tveim að vitja neta í Fiskivatni. Þau höfðu áður hlaðið vörðuna. Þegar þau koma að vörðunni spyr sú stutta hvað hún heiti. Hún fær það svar að ætli sé ekki best að hún heiti Guðrúnarvarða. Varðan stendur enn við Hádegisborgirnar og varðar leiðina að vatninu.
Þegar við komum upp að vatninu sjáum við að þrír menn standa á bakkanum undir borgunum sem eru kenndar við vatnið. Þeir sjá okkur og greinilegt var að þeir vildu ekkert við okkur tala. Þess í stað urðu þeir flóttalegir mjög og hurfu sjónum okkar fljótt þar sem þeir hröðuðu sér norðvestur eftir hlíðinni niður í dal. Annað hvort hafa þeir haldið að við værum útilegumenn og hættuleg mjög eða þeir hafi sjálfir verið í erindagjörðum við vatnið sem kröfðust leyfis sem þeir ekki höfðu. Hugsanlega voru þessi menn bara haldnir félagsfælni og voru þarna með fullu leyfi. Hver veit?Við hófum veiðar í Breiðuvíkinni, færðum okkur síðan á tangann milli Breiðuvíkur og Lómavíkur, veiddum Lómavíkina og vesturbakkann undir hlíðinni. Þegar við komum að víkinni handan við Réttartangann var farið að rökkva. Þar tók urriði hjá Guðrúnu en hann slapp eftir stuttan slag. Urriðinn sá var eina lífið sem við urðum vör við utan fuglana sem við vatnið búa, meinta veiðiþjófa og gæsaskyttur sem við hittum á leið okkar til baka niður hálsinn.

Þrátt fyrir fiskleysið var ferðin í sveitakofann ekki erindisleysan ein því þúfurnar í kringum kofann voru bláar af berjum. Við tíndum fjórtán lítra af bláberjum og þegar þetta er skrifað er verið að sulta af miklum móð.
Comments